Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þjóðin þarf að kynnast bændum betur

02.03.2019 - 10:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Guðrún Tryggvadóttir er fyrsta konan sem gegnir formennsku í rúmlega 180 ára sögu Bændasamtakanna. Hún segir að þjóðin þurfi að fá að kynnast bændum betur og hvetur til samtals. 

Guðrún er bóndi í Svartárkoti innst í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar rekur Guðrún sauðfjárbú og menningar- og ferðaþjónustu og reykir regnbogasilung ásamt eiginmanni sínum, móður, systur og mági. 

Það er óhætt að segja að Svartárkot sé ekki beint í alfaraleið. Það er bókstaflega þar sem vegurinn endar - í jaðri Ódáðahrauns.

„Þetta er náttúrulega langt frá,“ segir Guðrún. „Þú skreppur ekkert í bíó, þú skreppur ekkert í búðina. Þú þarft svolítið að skipuleggja þig til framtíðar. En þetta er rosalega góður staður og ég myndi ekki skipta,“ segir hún.

Breyting að sjá ekki lengur konu í formannsstólnum

Nýja starfið leggst vel í Guðrúnu en hún segir að það krefjist þess óneitanlega að fjölskyldan skipuleggi sig öðruvísi en nú. Hún segist ekki koma inn með stórar áherslubreytingar þó svo að það verði óneitanlega breyting fyrir bændur að sjá ekki lengur karlmann í formannsstólnum.   

„Auðvitað vinnur fólk aldrei eins og við vitum bara að við hugsum ekki eins, karlar og konur. En við ætlum að halda áfram með þessu stóru mál sem eru framundan,“ segir hún.

„Ég er bara gríðarlega bjartsýn á íslenskan landbúnað.“

„Við búum hérna við einstakar aðstæður, eins og við þekkjum, hvað varðar hreinleika og litla sýklalyfjanotkun eins og allir þekkja því þetta er búið að vera mikið í umræðunni,“ segir Guðrún.

Hún segir að innflutningur á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum sé gríðarstórt hagsmunamál fyrir alla Íslendinga, ekki bara bændur sem séu alfarið á móti honum. Lausnin sé ekki einföld en bændur séu staðráðnir í að finna hana. 

Þurfum öll að kynnast betur

Guðrún segir að eitt af því sem bændur þurfi að vinna í sé að minnka það bil sem myndast hefur milli bænda og þeirra sem búa í þéttbýli. Það sé ótrúlega stutt síðan allir áttu ömmu og afa í sveit og börn voru send í sveit á sumrin.  

„Við höfum kannski ekki vrið nógu dugleg að segja ykkur þjóðinni hvað við erum í rauninni frábær þannig að kannski þurfum við bara öll að kynnast aðeins betur,“ segir Guðrún.

„Ef þið viljið koma í heimsókn og ræða málin þá bara er það um að gera, talið við bændur, vitið hvað þeir eru að gera. Við erum ótrúlega áhugaverð,“ segir hún.

Mynd með færslu
 Mynd:
Guðtrún Tryggvadóttir
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir