Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Þjóðin klofin í Icesave

17.03.2011 - 07:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Rúm 52 prósent þeirra sem afstöðu taka segjast ætla að samþykkja Icesavelögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl í könnun sem MMR gerði fyrir Viðskiptablaðið.

Rúm 52 % þeirra sem afstöðu taka segjast ætla að samþykkja Icesavelögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl í könnun sem MMR gerði fyrir Viðskiptablaðið. Tæp 48 prósent ætla að segja nei. Um 900 svöruðu og vikmörk eru sögð 3,8%. 23,1%  eru óákveðin og 3,9 % vildu ekki svara.


Nokkur munur var á milli kynja en verulegur eftir búsetu. Tæp 58% þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu sögðust ætla að segja já en 43% þeirra sem búa á landsbyggðinni. Þá er mikill munur eftir menntun 58 prósent háskólamenntaðra ætla að samþykkja en 59 prósent þeirra sem aðeins hafa grunnskólapróf ætla að segja nei.

Í sömu könnun var spurt um afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. Tæp 56 prósent voru andvíg, 30 prósent fylgjandi en rúm 14 prósent óráðin.

Alþingi hyggst fela Lagastofnun Háskóla Íslands að gera hlutlaust og aðgengilegt kynningarefni um Icesave-samningana fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl.

Kynningarefnið verður sent á öll heimili landsins en ríkissjóður borgar brúsann. Þetta varð niðurstaðan eftir viðræður formanna þingflokka og forseta Alþingis. Þingsályktunartillaga þessa efnis verður rædd á þingi í dag en allir flokkar standa að henni. Fram hefur komið að innanríkisráðuneytið taldi sig ekki hafa heimild til að láta gera kynningarefni um Icesave-samningana.