Þjóðin gæti haft aðkomu með netkönnunum

03.07.2018 - 09:40
Mynd: RÚV / RÚV
Til stendur að tryggja aðkomu þjóðarinnar að vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar, til dæmis með netkönnunum. Þetta segir Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi þingforseti, sem stýrir vinnunni með formönnum flokka á þingi.

Hópurinn hefur fundað nokkrum sinnum og hittist síðast fyrir helgi á Þingvöllum. Starfið á að taka tvö kjörtímabil. Á því fyrra verður reynt að byggja á niðurstöðu stjórnarskrárnefndar sem skilað var 2016 hvað varðar umhverfis- og auðlindamál og þjóðaratkvæðagreiðslur. Einnig stendur til að ræða á fyrra kjörtímabilinu breytingarákvæði stjórnarskrárinnar, málefni fullveldisframsals og kaflann um forsetann og framkvæmdavaldið, sem Unnur Brá segir að sé mjög viðamikill og umræðan skammt komin.

Unnur sagðist í Morgunútvarpi Rásar 2 bjartsýn á starfið framundan og sagði jafnframt að aðkoma þjóðarinnar að verkefninu yrði tryggð.

„Það er hægt að fara í stóra almenna, hefðbundna skoðanakönnun eins og við þekkjum, þar sem úrtak er valið sem fær sent heim til sín pappíra, gögn til að kynna sér og síðan er gerð könnun í kjölfarið á því. Með þann hóp er þá hægt að vinna áfram yfir allt tímabilið,“ segir Unnur Brá. Einnig sé verið að skoða að setja af stað verkefni með svokallaðri lýðvistun (e. crowd sourcing). Þá sé enn einn möguleikinn umræðuhópar með eins konar þjóðfundarfyrirkomulagi, þar sem fulltrúar almennings komi saman í raunheimum og ræði saman. Afraksturinn yrði svo innlegg í vinnu flokksformannanna.

Heyra má viðtalið við Unni Brá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi