Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þjóðhagsstofnun verður ekki að veruleika

28.09.2015 - 20:17
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Ný þjóðhagsstofnun verður ekki að veruleika, þótt Alþingi hafi samþykkt það einróma með þingsályktun fyrir fimm árum. Þetta er álit varaformanns þingmannanefndar, sem fjallaði um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Nú þurfi að horfa fram á veginn.

Í dag eru fimm ár liðin frá einum dramatískasta degi íslenskrar stjórnmálasögu. Alþingi samþykkti að Landsdómur yrði kallaður saman til að rétta yfir Geir H. Haarde, en ekki yfir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna Matthiesen eða Björgvin G. Sigurðssyni. 

Þótt Alþingi hafi verið klofið í Landsdómsmálinu, samþykktu þingmenn einum rómi þennan sama dag þingsályktunartillögu um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. 

Í þingsályktunartillögunni kom meðal annars fram að brýnt væri að taka starfshætti þingsins til endurskoðunar, og að taka yrði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega. Draga þyrfti lærdóm af henni.

Unnur Brá Konráðsdóttir, varaformaður þingmannanefndarinnar, segir að ályktunin hafi gagnast vel á síðasta kjörtímabili. „Það voru náttúrulega kosningar í millitíðinni, það er komið nýtt fólk á Alþingi sem gæti haft aðrar skoðanir á því hvernig starfshættir Alþingis eigi að vera og hvernig störfum á þinginu sé best háttað,“ segir Unnur Brá.

Í ályktuninni er kveðið á um ýmsar breytingar á löggjöf, rannsóknir og úttektir á stofnunum og vinnulagi. Í dag, fimm árum eftir að þingsályktunin var samþykkt og þremur árum eftir að ljúka átti breytingunum, er ýmsum málum enn ólokið.

Stjórnarskrárnefnd vinnur enn að endurskoðun á stjórnarskránni. Lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm hefur enn ekki verið breytt, og ekki í augsýn að stofnuð verði sjálfstæð ríkisstofnun til að fylgjast með þjóðhagsþróun og semja þjóðhagsspá.

Þá hefur ekki verið unnin stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands.Stjórnarskrárnefnd vinnur enn að endurskoðun á stjórnarskránni. Lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm hefur enn ekki verið breytt, og ekki í augsýn að stofnuð verði sjálfstæð ríkisstofnun til að fylgjast með þjóðhagsþróun og semja þjóðhagsspá. Þá hefur ekki verið unnin stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. „Nú þurfum við líka að fara að horfa fram á veginn. Og þessi stjórnsýsluúttekt sem þarna var mælt með varðandi Seðlabankann og fjármálaefitrlitið stóð fyrir sínu á þeim tíma, en við getum ekki eytt öllum okkar krafti og fjármunum í að endurskoða fortíðina. Við verðum auðvitað að læra af henni, en við þurfum að halda fram á veginn og einbeita okkur að því verkefni. Ég held að það sé það besta sem við getum gert í dag.“

Hvað með þjóðhagsstofnun?  „Niðurstaðan af því var sú að það var ekki gert. Og ég held að það verði niðurstaðan, þrátt fyrir þessa ályktun. “ 

 

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV