Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þjóðgarður undir smásjá vegna framúrkeyrslu

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Rekstur Vatnajökulþjóðgarðs sætir nú óháðri úttekt, að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vegna mikillar skekkju í bókhaldinu. Framkvæmdastjóri þjóðgarðsins segir þetta 70 milljóna framúrkeyrslu sem skýrist af launalið starfsmanna þjóðgarðsins. Stjórnarformaður þjóðgarðsins segir brýnt að fá úttektina, en málið komi flatt upp á stjórnina.

Ófullnægjandi skýringar

Ráðuneytið tilkynnti stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs um miðjan janúar, að til standi að gera úttekt á rekstrinum vegna mikils halla á rekstri félagsins í fyrra. Þetta var gert eftir að gögn um fjárhag og rekstur sýndu töluverða framúrkeyrslu frá samþykktri rekstraráætlun, en ríkið veitti 671 milljón til Vatnajökulsþjóðgarðs á síðasta ári. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag. Ráðuneytið telur útskýringar sem fengist hafa á frávikinu ófullnægjandi. 

Rúmar 70 milljónir aukalega vegna launa

Framkvæmdastjóri þjóðgarðsins, Þórður Halldór Ólafsson, segir í samtali við fréttastofu að um sé að ræða rúmar 70 milljónir yfir áætlun vegna launa starfsfólks. Þar af séu 15 milljónir vegna fjarvistaruppbóta til starfsmanna í óbyggðum vegna hæstaréttardóms sem féll í fyrra. Þá hafi þjóðgarðurinn tekið við jörðinni Felli við Jökulsárlón í byrjun árs, og 17 milljónir í laun starfsmanna þar hafi ekki verið inni í áætlun. Þá fóru 40 milljónir í viðbótarálag á landvörsluna í heild sinni, sem voru ekki á áætlun. Þórður segir ágætt að úttektin verði gerð og það sé ekkert óeðlilegt við það. 

Málið kom flatt upp á alla

Ármann Höskuldsson, stjórnarformaður félagsins, segir í samtali við fréttastofu að málið komi flatt upp á alla. Það sé erfitt að fá botn í það, þar sem tölurnar séu misjafnar eftir því við hvern er talað. Úttektin muni liggja fyrir í lok mánaðarins og verði gerð opinber. Það séu þó ákveðnar vísbendingar um að fjárhæðirnar séu verulegar.

Niðurskurður og auknar tekjur

Í fundargerð stjórnar Vatnajökulþjóðgarðs síðan á föstudag er lagt til að draga úr rekstrarkostnaði þjóðgarðsins í ýmsum liðum. Til þriggja ára nemur sá niðurskurður um 110 milljónum króna. Þá eru lagðar til leiðir til að auka tekjur á sama tímabili, meðal annars með auknum tekjum af bílastæðagjöldum. Með þessum aðgerðum telur stjórnin að hægt sé að ná inn rúmum 280 milljónum til þriggja ára. 

 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV