Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þjóðgarðsvörður kærir kafara

26.05.2013 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum hefur lagt fram kæru á hendur Norðmanni fyrir að kafa í leyfisleysi í gjánni Silfru í þjóðgarðinum fyrir tveimur dögum. Í tilkynningu frá Þjóðgarðsverði segir að maðurinn hafi kafað einn síns liðs, án viðeigandi búnaðar í Silfru en slíkt sé óheimilt.

Þá hafi hann látið undir höfuð leggjast að tilkynna um væntanlega köfun í þjónustumiðstöð þjóðgarsins og ekki framvísað skírteinum um hæfni sína. Norðmaðurinn hafi þar að auki virt að vettugi reglur um köfun í þjóðgarðinum sem séu kynntar með áberandi hætti á skiltum við Silfru og fleiri stöðum í þjóðgarðinum. Kafarinn missti meðvitund og sökk og björguðu tveir menn sem voru í Silfru lífi hans. 

Reglur og fyrirmæli um köfun í Silfru voru sett í byrjun þessa árs en í gjánni hafa orðið banaslys, síðast í lok árs 2012, og fleiri óhöpp hafa orðið þar sem skammt var milli lífs og dauða. Í tilkynningu kemur fram að Þjóðgarðurinn leggi áherslu á að tilvik sem þessi séu rannsökuð og að farið sé að lögum og reglum um köfun til að tryggja fyllsta öryggi.