Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þjóðfylkingin ætlar í sveitarstjórnarmálin

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenska þjóðfylkingin ætlar að bjóða fram í komandi sveitarstjórnarkosningum. Áhersla verður lögð á Reykjavík og Suðurnes, en stærri byggðarlög, eins og Akureyri, koma einnig vel til greina, að sögn nýs formanns flokksins.

Hættu við framboð til Alþingis

Íslenska þjóðfylkingin ætlaði að bjóða fram í öllum kjördæmum í alþingiskosningunum í fyrra. Deilur innan flokksins á milli oddvitanna og formannsins urðu til þess að hætt var við framboð í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, meðmælendur skorti í Suðvesturkjördæmi og ekki náðist að fá fólk á lista í Norðausturkjördæmi. Í vor tók Guðmundur Þorleifsson við formannsstóli af Helga Helgasyni.

Leggja áherslu Suðurnes vegna fjölda hælisleitenda

Guðmundur segir í samtali við fréttastofu að það hafi verið ákveðið að flokkurinn bjóði fram til sveitarstjórnar í komandi kosningum.

„Þetta er allt á frumstigi, enda nægur tími til stefnu. Það er verið að setja saman hverjir gætu verið sterkir á lista,” segir hann. Flokkurinn ætlar að leggja áherslu á sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og segir Guðmundur það meðal annars vera vegna fjölda hælisleitenda á þeim síðarnefndu.

„Voða spenntur fyrir Akureyri”

Til stendur að bjóða fram á enn fleiri stöðum á landinu. „Okkar maður á Akureyri er að ræða við menn og það fer eftir því hvort menn nái saman um málefni. Ég er voða spenntur fyrir Akureyri og það kemur vel til greina að bjóða fram þar,” segir Guðmundur.