Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þjóðarsorg í Mósambík eftir hamfarirnar

20.03.2019 - 03:21
Erlent · Hamfarir · Afríka · Malaví · Mósambík · Simbabve · Veður
Mynd með færslu
 Mynd:
Fellibylurinn Idai olli gríðarlegum hamförum sem hafa sett líf og tilveru milljóna manna í þremur Afríkuríkjum úr skorðum, samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna. Óttast er að þúsundir hafi farist í hamförunum. Flóð af völdum fellibylsins ollu gríðarlegri eyðileggingu og manntjóni á stóru svæði í Mósambík, Simbabve og Malaví í liðinni viku. Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Mósambík vegna hörmunganna.

 Yfir 200 hafa þegar fundist látin í Mósambík og forseti landsins, Filipe Nyusi, segir yfir 350.000 manns enn í bráðri hættu vegna flóðanna. Hann óttast að bara í Mósambík hafi yfir 1.000 týnt lífi í veðurofsanum og flóðunum í kjölfarið. Borgin Beira varð verst úti. Þar eru um 90 prósent allra mannvirkja mikið skemmd eða ónýt, segir í sameiginlegri tilkynningu Rauða krossins og Rauða hálfmánans. 

Samtals hafa 350 dauðsföll verið staðfest í löndunum þremur til þessa. Fullvíst er talið að þessi tala eigi eftir að hækka umtalsvert því stór hluti hamfarasvæðanna er lítt aðgengilegur enn þar sem fjöldi vega og brúa gjöreyðilagðist í flóðunum og símasamband liggur niðri. Sameinuðu þjóðirnar áætla að hátt í þrjár milljónir manna hafi misst heimili sín, séu á hrakhólum eða hafi orðið fyrir umtalsverðum búsifjum vegna hamfaranna.