Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þjóðarmorð enn framin í Mjanmar

25.10.2018 - 05:11
Erlent · Asía · Mjanmar · Róhingjar
epa06976153 (FILE) - Senior General Min Aung Hlaing (R) and Myanmar Foreign Minister and State Counselor Aung San Suu Kyi (L) at Naypyitaw International Airport in Naypyitaw, Myanmar, 06 May 2016 (reissued 27 August 2018). According to an independent
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar, ásamt Min Aung Hlaing, yfirmanni hersins. Mynd: EPA-EFE - EPA
Eftirlitssveitir Sameinuðu þjóðanna segja stjórnvöld í Mjanmar enn fremja þjóðarmorð á Róhingjum sem eftir eru í landinu. Þá sýni stjórnvöld engan vilja til að virkja raunverulegt lýðræði í landinu. Guardian hefur eftir Marzuki Darusman, yfirmanni eftirlitssveitar SÞ í Mjanmar, að þúsundir Róhingja flýi til Bangladess.

Þær 250 til 400 þúsund Róhingja sem ákváðu að vera eftir hafi búið við ofbeldisverk stjórnarhers Mjanmars, og þurfi að sæta kúgun og hindrunum á hverjum degi. Þjóðarmorð standi í raun enn yfir. Yanghee Lee, sem stýrir rannsóknum á mannréttindum í Mjanmar fyrir hönd SÞ, segir að hún að fjöldi annarra hafi vonast til þess að Aung San Suu Kyi myndi hverfa frá stjórnarháttum fyrri ára, en lítið sem ekkert hafi breyst í landinu frá því hún tók við völdum. Hún segir Suu Kyi vera í algjörri afneitun varðandi grimmdarverk stjórnarhersins gegn Róhingjum.

Darusman bað um fund með Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær, en sex af 15 ríkjanna sem eiga sæti í ráðinu afboðuðu fundinn; Kína, Rússland, Bólivía, Miðbaugs-Gínea, Eþíópía og Kasakstan.

Stjórnarherinn hefur stormað í gegnum þorp Róhingja í Rakhine-héraði Mjanmars í meira en ár. Þeir íbúar sem ekki náðu að flýja voru beittir svívirðilegu ofbeldi, áður en þorp þeirra voru brennd til ösku. Um 700 þúsund þeirra hafa flúið yfir landamærin til Bangladess.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV