Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þjóðarflokkurinn í Kambódíu lýsir yfir sigri

29.07.2018 - 15:15
epa06917075 Cambodian Prime Minister Hun Sen (C), next to his wife Bun Rany (L), speaks to journalists at a polling station in Kandal province, Cambodia, 29 July 2018. Cambodia's sixth national assembly elections are held on 29 July.  EPA-EFE/MAK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þjóðarflokkurinn í Kambódíu, flokkur Hun Sen forsætisráðherra landsins, hefur lýst yfir sigri í þingkosningum sem þar fóru fram í dag. Kosningarnar hafa verið umdeildar bæði innan lands og utan, því að eini raunverulegi stjórnarandstöðuflokkurinn, Bjargráðaflokkur Kambódíu, var bannaður og leystur upp.  

AFP hefur eftir talsmanni Þjóðarflokksins að búist sé við að flokkurinn fái hundrað þingsæti af hundrað tuttugu og fimm. Hun Sen hefur verið forsætisráðherra frá árinu 1985, er því næsta öruggur með að halda embættinu.

„Landar okkar hafa kosið lýðræðið og nýtt sér rétt sinn,“ sagði Hun Sen á Facebook síðu sinni eftir að kjörstöðum hafði verið lokað. Talið er að orðunum hafi verið beint til stjórnarandstöðunnar sem hvatti fólk til að sniðganga kosningarnar. AFP hefur eftir kjörstjórn að kosningaþátttaka hafi verið 82 prósent, mun meiri en í síðustu kosningum árið 2013 þegar 69 prósent kusu. 

Bjargráðaflokkur Kambódíu fékk 55 af 123 þingsætum í kosningunum 2013 og sakaði þá Þjóðarflokkinn um kosningasvik. Neituðu kjörnir fulltrúar flokksins að taka sæti sín á þinginu til að byrja með, en létu til leiðast að setjast á þing eftir nokkurt samningaþóf við stjórnarflokkinn. Í nóvember í fyrra dæmdi hæstiréttur landsins Bjargráðaflokkinn ólöglegan, eftir að ríkisstjórn Huns sakaði hann um að leggja á ráðin um valdarán með aðstoð Bandaríkjamanna. Flokkurinn var leystur upp, fulltrúar hans sviptir þingsætum sínum og leiðtogi hans ákærður og dæmdur fyrir landráð. Stór hluti flokksforystunnar flúði land í kjölfarið.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV