Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þjóðaratkvæðagreiðsla komi enn til álita

14.03.2014 - 08:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrri umræðu um tillögu utanríkisráðherra að slíta aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið lauk á Alþingi á fjórða tímanum í nótt. Tillagan gengur nú til utanríkismálanefndar Alþingis sem fær hana til meðferðar.

Tillaga Pírata og nokkurra þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna, þess efnis að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna samhliða sveitarstjórnakosningum í vor fór sömuleiðis til nefndar. Málamiðlunartillaga þingmanna vinstri grænna, um að gera formlegt hlé á viðræðum og hefja þær ekki að nýju fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, sem fram fari á kjörtímabilinu, var líka vísað til nefndar. Enginn þingmaður tók til máls um tvær síðustu tillögurnar. Ekkert samkomulag liggur fyrir um hvernig umfjöllun í nefnd verður háttað eða um framhald þessara mála að öðru leyti. Næsti þingfundur er á þriðjudag þar sem þingflokkar funda allan mánudag.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir enn koma til greina að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Þetta kom fram í ræðu hans á þingfundi á ellefta tímanum í gærkvöld. Þar sagði Bjarni að spurt væri hvers vegna ríkisstjórnin efndi ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

„Og sannarlega var talað um það hér bæði fyrir kosningar, í tengslum við ríkisstjórnarmyndunina og eftir hana,“ sagði fjármálaráðherra. „Og það kemur enn til álita að gera það. Það liggur í þeim orðum að málið komi til skoðunar í nefnd. Það er enginn sérstakur ásetningur þessarar ríkisstjórnar að halda málinu frá þjóðinni en það er hinsvegar hluti af þingsályktunartillögunni að við vissar aðstæður sé vissara að leita til þjóðarinnar. Svo vil ég gera mjög skýran greinarmun á tvennu; annars vegar því að bera það mál, sem hér er til umræðu í þinginu að draga aðildarumsóknina til baka, undir þjóðina og hinu; að spyrja þjóðina að því hvort nú sé ekki góður tími til þess að ljúka aðildarviðræðunum. Þetta er sitthvor hluturinn. Það er á dagskrá þingsins núna að draga aðildarumsóknina tilbaka. Mér finnst að inni í nefndinni eigi að ræða það, þá spurningu og þá kröfu sem upp er komin í þjóðfélaginu af tilefni þessa máls, hvort að þá spurningu eigi að bera undir þjóðina, það finnst mér að eigi að vera verkefni utanríkismálanefndar.“