Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þjóðaratkvæðagreiðsla ekki út úr myndinni

26.03.2015 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálaráðherra skorar á þingmenn að taka höndum saman og reyna að leysa þá spennu sem sé á vinnumarkaði í stað þess að magna hana enn frekar. Hann segir að þjóðaratkvæðagreiðsla sem tengist Evrópusambandinu hafi aldrei verið slegin út af borðinu.

 

Stríðsástand á vinnumarkaði 

Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar benti á það á Alþingi í dag að þrátt fyrir góð áform ríkisstjórnarinnar í stefnuyfirlýsingu um að auka samstöðu meðal þjóðarinnar og að vinna gegn sundurlyndi þá væri árangurinn lítill. Samráð væri lítið sem ekkert við stjórnarandstöðu um einstök mál, stríðsástand blasi við á vinnumarkaði og óljóst sé hvert framlag ríkisstjórnarinnar sé í þeim efnum. „Það blasir við mér að það streyma hér inn ja, eða reyndar streyma nú ekki inn en það koma einstaka sinnum inn hér þingmál frá ríkisstjórninni og þau eru flest þau marki brennd að í málum eins og þróunarsamvinnu til dæmis þar sem er ríkur vilji þingmanna hér til að gera vel er ekkert samráð, ekki neitt, af hverju og af hverju ekki,“ spyr hann. 

Ríkisstjórnin á eftir áætlun

Í dag var síðasti þingfundadagur á Alþingi fyrir páskahlé og staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur lagt fram innan við helming þeirra mála sem hún stefndi að í janúar að yrðu lögð fram. Enn er beðið eftir stórum málum frá ríkisstjórninni á borð við húsnæðismál félagsmálaráðherra, sem talað var um sem sterkt útspil í kjaraviðræðum, veiðigjaldið er ókomið, frumvarp um náttúrupassa situr enn í nefnd og gjaldataka á ferðamannastöðum á þessu ári í mikilli óvissu. Þar fyrir utan svífur umræðan um Evrópusambandið og þjóðaratkvæðagreiðslu enn yfir Alþingi. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópusambandsmálinu vera í samræmi við vilja um sjötíu prósenta kjósenda sem ekki vilji ganga í sambandið. „Við getum líka rætt um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu, það hefur aldrei verið slegið út af borðinu,“ segir hann.

Mikil spenna þrátt fyrir aukinn kaupmátt

Þá tekur Bjarni undir með formanni Bjartrar framtíðar, ástandið á vinnumarkaði sé alvarlegt. „Að á sama tíma og hér mælist einn mesti vöxtur kaupmáttar í Evrópu skuli vera jafn mikil spenna á þeim markaði það er margt sem að mætti segja um þá stöðu sem ekki er hægt að koma að í einu svari hér en tökum höndum saman og reynum að leysa úr þessum vandamálum í stað þess að reyna að æsa þau frekar upp,“ segir hann. 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV