Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Þjóð í ofbeldissambandi við ríkisstjórn“

13.03.2015 - 14:37
Frá mótmælum við Austurvöll 8. mars 2014. - Mynd: RÚV / RÚV
„Það sem gerir fólk ósáttast er að það sé verið að gefa því hinn metaforíska fingur aftur og aftur,“ segir Hrafn Jónsson pistlahöfundur um slit ríkisstjórnar á aðildarviðræður við ESB. Hrafn tók saman helstu fréttir vikunnar ásamt Braga Páli Sigurðarsyni í Morgunútgáfunni.

 Hrafn segir að ástæða hinna hörðu viðbragða almennings sé ekki endilega endalok viðræðnanna. „Aðalpunkturinn er ekki hvort við höldum áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið eða ekki, það er ekki ástæða þess að fólk er brjálað. Ég held að það séu letilegir einveldistilburðir að þora ekki að taka við nöldrinu í þinginu - þora ekki að díla við þingið. Það er svo hættulegt andartak þegar þú segir, „Nei, ég nenni ekki rífast um þetta meira, ég ætla bara að gera þetta,“ segi hann.

Lang-lúbarin af ríkisstjórninni

„Það er þessi leti og hræðsla í ríkisstjórninni að þora ekki í umræðuna,“ segir Bragi Páll. „Þegar þeir reyndu að koma þessu í gegnum þingið var það stoppað, þeir gátu það ekki. Þess vegna eru þeir að fara þessa leið, ekki bara vegna þess að það er mögulegt eða að það hafi alltaf verið ætlunin, heldur vegna þess að þeir gátu ekki farið með þetta hina lýðræðislegu leið,“ segir Bragi. 

Aðspurður segir Hrafn uppátækið sennilega koma þjóðinni lítið á óvart. „Þetta kemur fólki ekkert á óvart, þetta ætti að gera það, en fólk er orðið lang-lúbarið af ríkisstjórninni,“ segir Hrafn. 

„Þjóðin á í ofbeldissambandi við ríkisstjórnina, það er búið að lemja okkur í sundur og saman og það er búið að farða yfir glóðaraugun,“ segir Bragi Páll.