Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þingvallavatn varasamt segir Heiðarbæjarbóndi

22.05.2018 - 19:00
Hlutirnir eru fljótir að gerast við Þingvallavatn þegar veðrið versnar snögglega, segir bóndinn á Heiðarbæ við vatnið. Veðrið var eins óheppilegt og það orðið segir karlmaður sem náði fólki upp úr vatninu, þegar slysið varð á sunnudag.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson / Þórir  - RÚV

Fólkið sem lést, bandarísk hjón á fimmtugsaldri, voru í um tíu manna hópi, sem er hér á landi að veiðum. Þau voru við Villingavatnsárós við suðvesturhluta Þingvallavatns. Þegar slysið varð þá var hávaðarok frá landi. Fólkið var komið töluvert út í vatnið á vöðlum. Ekki þarf mikið til þegar það er komið langt til þess að því skriki fótur í rokinu og það fari í vatnið. 

Fréttastofa talaði við karlmanninn í dag sem náði fólkinu upp úr vatninu. Hann var í sumarbústað tæpan kílómetra frá veiðihópnum og sá að það greip um sig nokkuð fát og fólkið kom að bústaðnum og leitaði aðstoðar. Hann fór við annan mann út á vatnið á bát. Þeir fundu konuna og fóru með að landi. Karlmaðurinn var kominn nokkuð langt út á vatnið og eftir drjúga stund komu þeir auga á hann undir yfirborðinu. Maðurinn, sem kom þeim að landi, segir að veðrið hafi nánast verið eins óheppilegt og það gat orðið. 

Jóhannes Sveinbjörnsson bóndi á Heiðarbæ 1 við Þingvallavatn segir margar hættur við vatnið og þar hafi orðið mörg slys. Hann veit þó ekki hvernig þetta slys vildi til eða hvernig fólkið var búið:

„Þegar það er kalt snemma á vorin, fólk illa búið og það kemur kannski allt í einu mjög slæmt veður að þá bara eru hlutirnir fljótir að gerast. Ef það fær til dæmis öldur yfir höfuðið jafnvel þó að fólk sé í búningum, sem að halda því þurru eða alla vega heitu, þá er oft höfuðið illa varið. Og það er það sem er viðkvæmast, hnakkinn, og fólk ofkælist og fær krampa og svo getur það drukknað.“

Jóhannes segir að fólk átti sig ekki á því hvað vatnið er kalt og þau á Heiðarbæ reyni að segja fólki til sem fer óvarlega við vatnið. Til dæmis í apríl fór íslenskur karlmaður á svokölluðu árabretti eða standbretti lengst út á vatnið, og var það glapræði, segir hann.

„Það er ekkert vit í að fara á einhverjum svona smáfleytum. Þetta er ekki þannig vatn.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Jóhannes Sveinbjörnsson bóndi á Heiðarbæ 1 í Þingvallasveit