Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þingrof, vantraust og stjórnarslit

05.04.2016 - 15:25
Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir / Þórgunnur Oddsdóttir
Vantraust, þingrof og stjórnarslit. Þetta eru nokkur þeirra hugtaka sem ber hátt í umræðunni í dag. Við skulum líta á hvað þau þýða og hvaða áhrif þau hafa á setu ríkisstjórna, einstakra ráðherra og þingsins í heild.

Vantraust á ráðherra eða ríkisstjórn

Vantraust felur í sér að ráðherra eða ríkisstjórn nýtur ekki lengur trausts Alþingis. Hægt er að leggja fram vantraust á einstaka ráðherra eða ríkisstjórn. Samþykki Alþingi vantraust á ríkisstjórn verður hún að víkja. Þá getur komið til þess að ný ríkisstjórn taki við eða efnt verði til nýrra þingkosninga. Það er þó sjálfstæð ákvörðun hvor leiðin er farin. Samþykki Alþingi vantraust á einstakan ráðherra verður viðkomandi að víkja af ráðherrastóli og annar verður skipaður í hans stað. Ríkisstjórnin situr þó áfram. 

Þegar stjórnarsamstarfi er slitið

Stjórnarslit verða þegar einn, fleiri eða allir stjórnarflokkarnir komast að þeirri niðurstöðu að þeir vilji ekki halda áfram stjórnarsamstarfinu. Þá verður forsætisráðherra að tilkynna forseta að stjórnin sitji ekki lengur. Ríkisstjórn er alla jafna beðin um að sitja áfram þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Þá eru þrír möguleikar fyrir hendi: Þeir flokkar sem eiga sæti á Alþingi koma sér saman um nýja ríkisstjórn, efnt er til kosninga eða utanþingsstjórn skipuð. Aðeins ein utanþingsstjórn hefur verið mynduð á Íslandi, á árum seinni heimsstyrjaldar.

Þing rofið - eða ekki

Einungis forsætisráðherra getur farið fram á að þing sé rofið. Kristján X konungur taldi sér skylt að verða við þingrofsbeiðni Tryggva Þórhallssonar 1931 og sömu sögu er að segja af Kristjáni Eldjárn þegar Ólafur Jóhannesson fór fram á þingrof árið 1974. Í bæði skiptin andmæltu stjórnarandstæðingar þingrofinu - í síðara skiptið hugðust sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn leggja fram vantraust á ríkisstjórnina en forsætisráðherra varð fyrri til. Samþykki forseti þingrofsbeiðni verður að halda kosningar innan 45 daga. Þingmenn halda sætum sínum og geta sett lög og myndað ríkisstjórn fram að kjördegi. Það er breyting frá því sem var 1931 og 1974. Þá voru þingmenn sendir heim um leið og þing var rofið.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV