Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þingrof ekki síðar en um miðjan október

25.07.2016 - 14:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forseti Íslands þarf að rjúfa þing og boða til kosninga í síðasta lagi um miðjan október, ætli stjórnarflokkarnir sér að halda Alþingiskosningar fyrir lok október.

Allt frá því stjórnarflokkarnir gáfu út yfirlýsingu um að Alþingiskosningum yrði flýtt hefur það legið í loftinu að kosningar fari fram fyrir lok október. Rökin gegn því að halda kosningar mikið síðar á árinu eru að þar með yrðu fjárlög næsta árs sett í mikið uppnám.

Enn hefur forsætisráðherra ekki viljað gefa upp dagsetningar fyrir kosningar. Kosið verður á laugardegi og síðasti laugardagur í október er 29. október. 

Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi kemur þing saman að nýju eftir sumarleyfi mánudaginn 15. ágúst. Samkvæmt 24. grein stjórnarskrárinnar þurfa kosningar að fara fram áður en 45 dagar eru liðnir frá því gert var kunnugt um þingrofið, eins og það er orðað. Önnur tímasetning sem bindur hendur forseta er að í kosningalögum segir að tilkynna skuli öll framboð til yfirkjörstjórnar eigi síðar en 15 dögum fyrir kjördag. Það er því ljóst að ætli stjórnarflokkarnir sér að halda kosningar í október þarf að tilkynna það í síðasta lagi fyrir miðjan október. Líklegt verður þó að telja að það verði gert fyrr, enda má sjá og heyra í fjölmiðlum að flestir stjórnmálaflokkanna eru farnir að undirbúa haustkosningar með einum eða öðrum hætti.

Hins vegar er ekki kveðið á um með skýrum hætti, hvorki í kosningalögum né stjórnarskrá hvort þing starfi eftir að það hefur verið rofið og boðað hefur verið til nýrra kosninga. Almennt hefur verið talið að þingið geti nýtt tímann eftir að þingrof hefur verið tilkynnt til að ljúka brýnum málum og sá er hátturinn á meðal þeirra þjóða sem búa við svipað fyrirkomulag.

Þetta er þó ekki algilt og má meðal annars nefna að þegar þingrof var tilkynnt 13. mars 2009 og kosningar boðaðar 25. apríl, þá starfaði þingið af krafti allt til 17. apríl eða þar til rétt vika var til kosninga og voru fjölmörg mál afgreidd á þeim tíma. Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi forsætisráðherra tók reyndar sérstaklega fram í ræðunni þar sem hún las upp þingrofsbréf forseta að engar hömlur væru á umboði þingmanna á þessu tímabili. 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV