Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þingmenn verði að beita sér í kvótaskerðingu

10.07.2016 - 18:16
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Þingmenn Suðurkjördæmis verða að beita sér fyrir því að smábátasjómenn á svæði D, frá Hornafirði til Faxaflóa, fái til baka 200 tonna strandveiðakvóta sem tekinn var af þeim í vor. Þetta segir formaður Landssambands smábátaeigenda.

Landssambandið hefur beitt sér af krafti

Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segir að þingmenn Suðurkjördæmis verði að þrýsta á að sjómenn á svæði D, frá Hornafirði til Faxaflóa, fái til baka 200 tonna strandveiðakvóta sem skertur var við úthlutun í vor. Hann hafnar því að Landssambandið hafi ekki beitt sér af nægum krafti í málinu, eins og Vigfús Ásbjörnsson trillukarl á Hornafirði hélt fram í hádegisfréttum.

Vona að ráðherra bæti kvótanum við svæði D

„Það er nú þannig að ráðherran tók ákvörðun um að miðla afla á milli svæða, sem ekki hefur verið gert áður" segir Örn Pálsson. „Hans forsendur voru þær, að viðmiðunin á strandveiðum á svæði D væri það mikil að það mætti og gæti verið betra að miðla yfir á A, B og C svæðin. Þetta er nú þannig fiskirí að það höfðu verið ógæftir og frekar tregt á D svæði. Svo gerist það nú í sumar að það er mjög góður afli og gæftir mjög góðar. Við höfum bent á að forsendur hafa breyst og þess vegna verði hann að bæta við þessum 200 tonnum á svæði D. Það er nú ekki alveg útséð um það ennþá að hann muni bæta við, því það er einn mánuður eftir. Ég ætla að vona að  hann verði við því. Við áttum fund með honum nú sl. fimmtudag" segir Örn.

Þingmenn Suðurkjördæmis verða að taka við sér

Forsvarsmenn Hrollaugs, Félags smábátaeigenda á Hornafirði hafa kvartað undan því að Landssamband smábátaeigenda hafi ekki beitt sér sem skyldi í málinu, en Örn hafnar því.  „Við höfum beitt okkur mjög mikið í þessu máli og byrjuðum á því strax í apríl. Það er búið að senda fjöldan allan af greinum og áskorunum. Önnur svæðisfélög hafa sent frá sér fjöldan allan af ályktunum þar sem skorað er á ráðherrann. Stjórn Landssambandsins hefur skorað á ráðherrann í tvígang að bæta þessu við. Ég held að málið sé nú þannig að það væru nú helst þingmenn kjördæmisins sem ættu að koma að þessu máli því þetta er auðvitað byggðamál. Og ég ætla að vona að þeir séu að vinna í því að rétta hlut Hornfirðinga og annarra á svæði D. En Landssambandið hefur verið mjög virkt í þessu og m.a. tekið inn þessa eindæmis ákvörðun um það að auka ekki þorskkvótann um 5000 tonn. Við höfum verið að vinna í því að fá kvótaukningu".
 

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV