Þingmenn þurfi meiri tíma til að skoða mál

07.02.2014 - 09:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmaður Pírata segist oft hafa setið hjá við atkvæðagreiðslu í þinginu því hann hafi ekki haft tækifæri til að kynna sér mál. Forseti Alþingis segir að tryggja verði að mál komi nógu snemma inn í þingið svo þingmenn fái tíma til að kynna sér þau.

Þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu hafa gagnrýnt störf í þinginu að undanförnu. Gagnrýnin hefur að miklu leyti snúið að því að þeim finnist þeir ekki fá nægan tíma til að kynna sér mál áður en þau fara til atkvæðagreiðslu. Í fyrradag baðst Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, afsökunar á að hafa greitt atkvæði með breytingum á reglum um almannatryggingar, en hann telur að málið hafi ekki verið nægilega vel ígrundað.

Rætt var við Einar K. Guðfinnsson, forseta Alþingis, og Jón Þór Ólafsson, þingmann Pírata um störf þingsins í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Jón Þór segir verkferla á þinginu ekki nógu góða. Þingmenn hafi ekki aðgang að víðtækri lagaþjónustu til að geta kynnt sér betur hvernig lagafrumvörp breytast, ekki sé hægt að fá upplýsingar af því sem fram fór á fundum sem þingmenn komist ekki á. Hann hafi því oft setið hjá við afgreiðslu mála. „Og það er bara þannig að það að reyna að koma sér inn í öll þingmál sem koma og gera það að því leyti að þú getir séð allar hliðarverkanir og aukaverkanir. Eitt orð getur verið lykilatriði. Þannig að nei, það er enginn leið fyrir þingmenn að koma sér inn í öll þessi mál.“

Mál þurfi að koma fyrr inn í þingið
Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis segir oft mikið álag á þingmönnum. Um 160 mál hafi komið inn í þingið á ári frá ríkisstjórninni undanfarin tvö ár. Hver þingmaður geti ekki kynnt sér í hörgul hvert einasta mál og verði að treysta á samvinnu. „Ég held að það sé engin töfralausn til við öllu þessu en það mikilvægasta sem ég hef verið að undirstrika er að við reynum að tryggja það að mál sem við erum að fara að takast á við komi tiltölulega snemma inn í þingið þannig að þingmenn hafi góða aðstöðu til að leggjast yfir mál.“

Þá þurfi þeir sem málin snerta að hafa kost á því að segja skoðun sína á þeim. „Og eftir því sem þessi vinna er skipulegar unnin því minni líkur eru á því að við gerum einhver mistök.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi