Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þingmenn neita viðtölum vegna Klausturmálsins

07.12.2018 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Anna Kolbrún Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, hafa ekki veitt RÚV viðtöl vegna Klausturmálsins í átta daga. Gunnar Bragi og Bergþór tóku sér leyfi frá störfum en Anna Kolbrún og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ætla að sitja áfram. Anna Kolbrún veitti vilyrði fyrir viðtali við RÚV í gærkvöld, en hætti svo við. Umræðan á Klaustri um Freyju Haraldsdóttur hefst á skál í tengslum við notendastýrða persónulegra aðstoð, NPA.

Svara ekki eða vísa í Morgunblaðið

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, hefur neitað RÚV um viðtal vegna Klausturmálsins síðan á fimmtudag í síðustu viku, daginn eftir að Stundin og DV birtu fyrstu fréttir upp úr upptökunum. Þá hafa Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, sem eru nú í ótímabundnu, launalausu leyfi frá þingstörfum, ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum fréttastofu um viðtal eða látið ná í sig. Síðustu viðtöl við þremenningana voru tekin fimmtudaginn 29. nóvember. Síðan þá hafa tveir umræddir þingmenn farið í leyfi, þeir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason verið reknir úr Flokki fólksins, siðanefnd Alþingis kölluð saman og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd boðað til fundar. 

Samþykkti viðtal í gærkvöld en hætti svo við

Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir fréttastofu hefur Anna Kolbrún alltaf neitað viðtali. Í gærkvöld samþykkti hún reyndar að veita fréttastofu viðtal, en dró það til baka seinna um kvöldið. Hún bauðst til þess að taka á móti spurningum fréttamanns í tölvupósti og svara þeim, en það var afþakkað af hálfu fréttastofu. 

Í stuttu samtali við fréttamann RÚV á miðvikudag vísaði hún einungis í forsíðuviðtal við sig í Morgunblaðinu, sem birt var þá um morguninn. Það má meðal annars sjá í meðfylgjandi myndskeiði síðan á miðvikudag þar sem Anna Kolbrún mætir á nefndarsvið Alþingis í fylgd Hólmfríðar Þórisdóttur, starfsmanns þingflokks Miðflokksins. 

Mynd:  / 
Anna Kolbrún í fylgd Hólmfríðar Þórisdóttur á leið á nefndarsvið Alþingis.

Fór í viðtal til systur starfsmanns Miðflokksins

Hólmfríður er eiginkona Sigurðar Ragnarssonar, Sigga storms, eins stofnanda Miðflokksins og oddvita í Hafnarfirði. Flokkurinn var upphaflega skráður til húsa á heimilisfangi þeirra hjóna. Á myndbandinu sést Hólmfríður reyna að koma í veg fyrir að fréttamaður RÚV spyrji Önnu Kolbrúnu spurninga, sem hún svarar með því að vísa í viðtalið í Morgunblaðinu þá um morguninn: „Ég tel mig hafa svarað spurningunum við Morgunblaðið,” „ég get vísað í viðtalið í Morgunblaðinu,” „það er ágætt að lesa bara viðtalið fyrst,” og „lestu viðtalið og tökum grunninn þaðan.”

Umrætt viðtal var tekið af blaðamanni Morgunblaðsins, Önnu Lilju Þórisdóttur, sem er systir Hólmfríðar Þórisdóttur, starfsmanns þingflokks Miðflokksins, sem sést á myndbandinu hér að ofan. Anna Lilja kom í Alþingishúsið á þriðjudag og yfirgaf svæðið í fylgd systur sinnar og Önnu Kolbrúnar. 

Athygli vekur að Anna Kolbrún er hvergi í viðtalinu spurð út í ummæli sín um Freyju Haraldsdóttur, sem hún heyrist á upptökunni uppnefna sem Freyju eyju. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur sagt, bæði í viðtölum og við Freyju sjálfa í símtali, að um hafi verið að ræða vegg á skrifstofu Miðflokksins sem sé kallaður eyja vegna þess að það þurfti að fjarlægja hann til að veita betra hjólastólaaðgengi. Freyja gefur lítið fyrir þau orð í grein sem hún skrifaði á Kjarnann

Ískrandi stóll eða bremsandi reiðhjól

Hins vegar kemur fram í viðtali Önnu Kolbrúnar við Morgunblaðið að hún taki heilshugar undir orð Sigmundar Davíðs að selahljóðið umtalaða hafi verið einhvers konar umhverfishljóð; stóll að hreyfast eða jafnvel reiðhjól að bremsa fyrir utan glugga. Haft er eftir Önnu Kolbrúnu í viðtalinu:

„Hverjum datt í hug að velta fyrir sér hugtakinu selur og tengja það við Freyju Haraldsdóttur? Hvaða fordómum býr sá yfir sem skrifaði fyrstu fréttina um það?“

Blaðamaður Vísis framkvæmdi óvísindalega tilraun til að sannreyna hvort hægt sé að framkalla slíkt hljóð með stól á Klaustri, en svo reyndist ekki vera. 

Bára kipptist við þegar hljóðið kom 

Í morgun afhjúpar Stundin hver það var sem tók upp samtöl þingmannanna sex á Klaustur umrætt kvöld. Það var Bára Halldórsdóttir, 42 ára hinsegin kona með fötlun, vopnuð gömlum Samsung-síma. Henni blöskraði svo tal þingmannanna að hún ákvað að taka það upp. Spurð í Stundinni út í umrætt selahljóð, segist Bára handviss um að það hafi komið frá þingmönnunum. 

„Ég heyrði þetta hljóð og kipptist við. Það er alveg ljóst að þetta hljóð var framkallað innanhúss og það kom úr þeirra átt,“ segir Bára við Stundina.

Mynd:  / 
Hér má heyra þingmennina ræða um Freyju Haraldsdóttur og skála fyrir Önnu Kolbrúnu og NPA.

Skála fyrir NPA og tala um Freyju eyju

Á upptökunni heyrast þau Gunnar Bragi, Sigmundur Davíð og Anna Kolbrún greinilega tala um Freyju Haraldsdóttur sem Anna Kolbrún vísar ítrekað til sem Freyju eyju.

Skrifstofustjóri Alþingis mótmælir ummælum Önnu

Sama miðvikudagsmorgun og Morgunblaðið birti viðtalið við Önnu Kolbrúnu, fór hún sömuleiðis í beina útsendingu í Bítið á Bylgjunni, ásamt Sigmundi Davíð. Þar gaf hún í skyn að ummælin á Klausturbarnum væru hluti af vinnustaðarmenningu sem ekki bara aðrir þingmenn, heldur einnig starfsmenn Alþingis, tækju þátt í. 

„En ég er svolítið farin að efast um að það séu bara alþingsmenn. Ég er að tala um stofnunina Alþingi vegna þess að starfsmennirnir, það eru allir mannlegir, þeir fara líka inn í þennan kúltúr þegar þeir fara þarna.“

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann harmaði þessi ummæli Önnu Kolbrúnar og segir þau ekki við rök að styðjast. Helgi mótmælir því að „starfsmenn Alþingis séu á einn eða annan hátt dregnir inn í þá umræðu sem orðið hefur í fjölmiðlum um samtöl nokkurra þingmanna um samþingsmenn sína og fleiri á veitingahúsi í nágrenni þingsins.“