Þingmenn Miðflokksins komnir á mælendaskrá

27.02.2019 - 13:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingfundur hefst klukkan þrjú á Alþingi. Þá verður fram haldið umræðu um frumvarp um aflandskrónulosun, en umræðunni var frestað klukkan 5:20 í nótt, eftir um fjórtán klukkustuna ræðuhöld. Þegar eru sjö þingmenn skráðir á mælendaskrá - allt þingmenn Miðflokksins.

Þingmenn flokksins héldu samtals meira en 300 ræður um málið í gær og í nótt.

Málið var til umræðu nánast óslitið frá klukkan 15 um daginn fram yfir klukkan fimm um nótt, eða í rúma fjórtán tíma. Í upphafi tóku nokkrir þingmenn annarra flokka til máls, en eftir því sem leið á voru nær eingöngu þingmenn Miðflokksins á mælendaskrá. Gunnar Bragi Sveinsson talaði oftast, eða 64 sinnum, Sigmundur Davíð sextíu sinnum og Bergþór Ólason 54 sinnum. 

Hættan sem Seðlabankinn varaði við ekki enn raungerst

Frumvarpið snýst um hvort aflandskrónueigendum verði heimilt að fjárfesta í innstæðubréfum Seðlabankans en ekki bara setja féð á bundinn reikning. Seðlabankinn taldi mikilvægt að frumvarpið yrði afgreitt áður en gjalddagi tiltekinna ríkisbréfa rynni upp, sem var í gær. Annars myndu aflandskrónueignir í lausu fé aukast um nær 70%, eða sem nemur 25 milljörðum króna.

Samkvæmt svari frá Seðlabankanum við fyrirspurn fréttastofu hefur það ekki enn gerst. Bankinn telur að ef samþykkt frumvarpsins dregst ekki um of sé ekki víst að hættan raungerist.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði í ræðustól Alþingis að sér þættu skýringar Seðlabankans heldur ótrúverðugar.
 

 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi