Þingmenn Miðflokksins héldu yfir 300 ræður

27.02.2019 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn Miðflokksins héldu meira en 320 ræður við aðra umræðu um meðferð krónueigna í gær og í nótt. Þar af voru sextán ræður um fundarstjórn forseta. Þingfundi var loks slitið á sjötta tímanum í morgun eftir að forseti Alþingis bauð þingmönnunum að halda umræðunni áfram þegar þing hefst að nýju í dag.

Önnur umræða um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál hófst um miðjan dag í gær. Flutningsmaður frumvarpsins er Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Samkvæmt frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar á aflandskrónulosun að hægt verði að fjárfesta í innstæðubréfum Seðlabankans en ekki bara setja féð á bundinn reikning. Seðlabankinn sagði mikilvægt að frumvarpið yrði afgreitt áður en gjalddagi tiltekins flokks ríkisbréfa rynni upp, sem var í gær, 26. febrúar. Annars myndi umfang aflandskrónueigna í lausu fé aukast um nær 70%, eða sem nemur 25 milljörðum króna, samkvæmt umsögn Seðlabankans. Þá taldi bankinn aukna hættu á að stórir aflandskrónueigendur muni leita út þegar peningarnir losna af bundnum reikningum. 

Sagði skýringar Seðlabankans ótrúverðugar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd tók fyrstur til máls, en Óli Björn tók sérstaklega fram í ræðu sinni að Sigmundur hefði verið fjarverandi við afgreiðslu frumvarpsins úr nefnd. Sigmundur Davíð sagði það rétt að hann hafi verið fjarverandi vegna veikinda, en að sér hugnaðist ekki að samþykkja það. „Mér þykir reyndar heldur óviðurkvæmilegt að Seðlabanki Íslands skuli setja þinginu hálfgerða afarkosti um að afgreiða eigi þetta mál í dag, ella geti eitthvað mjög óljóst gerst,“ sagði Sigmundur Davíð. „Skýringar bankans á því finnast mér ekki alveg trúverðugar. Þar er gefið til kynna að núna, loksins þegar ákveðnir eigendur skuldabréfa séu búnir að vera lokaðir inni í höftum í 10 ár, muni þeir gjarnan vilja vera áfram bara ef þeir fái að endurnýja skuldabréfin á þessum tiltekna degi.“

Stóð yfir í rúma fjórtán tíma

Málið var til umræðu nánast óslitið frá klukkan þrjú um daginn fram yfir klukkan fimm um nótt, eða í rúma fjórtán tíma. Í upphafi tóku nokkrir þingmenn annarra flokka til máls, en eftir því sem leið á voru nær eingöngu þingmenn Miðflokksins á mælendaskrá. Gunnar Bragi Sveinsson talaði oftast, eða 64 sinnum, Sigmundur Davíð sextíu sinnum og Bergþór Ólason 54 sinnum. Alls fluttu þingmenn Miðflokksins meira en 320 ræður. 
Samkvæmt fundargerð Alþingis tók Þórunn Egilsdóttir þingflokksformaður Framsóknarflokks til máls á fimmta tímanum í nótt. Svo var þó ekki, heldur er um ranga skráningu að ræða og í raun var það Bergþór Ólason sem flutti ræðu.

Mynd með færslu
 Mynd:
Ranglega var skráð að Þórunn Egilsdóttir hefði tekið til máls

Fundi var slitið klukkan 5:20 í morgun. Forseti Alþingis bauð þingmönnum Miðflokksins að halda umræðunni þegar þing hefst að nýju í dag. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, bað þá um orðið og sagðist vilja halda áfram umræðum í dag ef fjármálaráðherra sæi sér fært að vera viðstaddur umræðurnar. Steingrímur J. Sigfússon, þingforseti, sagði það þegar hafa verið ákveðið að leita til starfandi fjármálaráðherra, í fjarveru Bjarna Benediktssonar, til að athuga hvort hann geti verið viðstaddur umræðurnar í dag, en Bjarni er staddur í Helsinki.
 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi