Þingmenn leigi sem ódýrasta bílaleigubíla

15.02.2018 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir að Alþingismönnum sé uppálagt að leita hagkvæmustu leiða þegar þeir leigja bílaleigubíla vegna starfa sinna fyrir þingið. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sagðist í Kastljósi í gær ekki sætta sig við reglu um að alþingismenn taki bílaleigubíla þegar þeir hafa ekið 15.000 kílómetra. Bílaleigubílarnir séu útkeyrðir og ekki góðir.

Ásmundur hefur sætt gagnrýni fyrir að fara ekki að reglum þingsins og leigja sér bílaleigubíl þegar aksturinn fer yfir 15.000 kílómetra á ári. Á síðasta ári ók hann 47.000 kílómetra í starfi sínu sem þingmaður og fékk 4.600.000 krónur frá Alþingi vegna kostnaðar við aksturinn. 

Helgi sagði í samtali við fréttastofu í dag að þótt þingmönnum sé uppálagt að leita hagkvæmustu leiða og leigja sem ódýrasta bílaleigubíla, þurfi stundum að horfa til færðar á vegum og mögulega leigja fjórhjóladrifna bíla sem geti reynst dýrari. Fréttastofa sendi í morgun Alþingi fyrirspurn um kostnað vegna aksturs og flugferða þingmanna, sem og heimiliskostnað þeirra. Helgi hefur beðið fjármálaskriftstofu Alþingis að taka saman upplýsingar og á von á að svar liggi fyrir í dag eða á morgun.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi