Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þingmenn fengu frest

Mynd með færslu
 Mynd: Háskóli Íslands
Mynd með færslu
 Mynd: Kristrún Sigurfinnsdóttir - RÚV
Háskólaráð Háskóla Íslands hefur frestað um hálfan mánuð ákvörðun um hvort námsbraut í Íþrótta og heilsufræði verði áfram á Laugarvatni eða verði flutt til Reykjavíkur. Ráðið féllst í gær á ósk þingmanna Suðurlandskjördæmis um frestinn, svo starfshópur þingmanna, heimamanna og fulltrúa háskólans gætu farið yfir alla kosti í málinu.

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands staðfesti þetta í samtali við Fréttastofu. Hann segir að það sé ekki vilji Háskólaráðs að fara frá Laugarvatni. „Okkur vantar miklu fleiri nemendur á Laugarvatn. Við ákveðum þetta eftir hálfan mánuð. Við höfum átt samtal við flesta sem málið varðar og síðast við þingmenn kjördæmisins í aðdraganda fundarins í gær". Hann segir að eins og staðan sé vanti hreinlega fé til að geta haldið úti starfinu þar í núverandi mynd.

„Hér er mikið undir“

Í erindi þingmannanna til ráðsins sem tekið var fyrir á fundi Háskólaráðs í gær var lagt til að starfshópurinn færi yfir hvaða kostir væru varðandi kostnað við mannvirkin á Laugarvatni. „Við teljum þetta mjög alvarlegt mál“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra og fyrsti þingmaður Suðurlands. „Hér er mikið undir, heilt byggðarlag. Svo er jafnljóst að geti Háskóli Íslands ekki haldið úti námi á Laugarvatni yrði það staðreynd en ekki kenning, að það sem Háskólinn taki að sér úti á landi sogist allt til Reykjavíkur“.

„Áfram starfsemi á Laugarvatni“

Rektor segir að það liggi fyrir nú, að ef námið yrði fært til Reykjavíkur á næsta hausti, yrði samt nám á Laugarvatni. Nemendur á öðru og þriðja ári næsta haust yrðu áfram þar. Þá væru í myndinni mótvægisaðgerðir sem snerust um aðra starfsemi. „Við bíðum eftir viðbrögðum ríkisvaldsins í þessu, hvort til séu leiðir til að halda áfram með íþróttafræðina á Laugarvatni“. Sigurður Ingi segir að færist námið frá Laugarvatni yrði það mikið högg fyrir Bláskógabyggð og Suðurland. Þó nemendur sem þar séu nú haldi áfram þar, sé fótunum kippt undan starfinu til lengri tíma. Í starfshópnum verði þrír þingmenn, Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir og Haraldur Einarsson.

„Ekki viðhald um árabil“

Samkvæmt skýrslu starfshóps HÍ um málefni námsbrautarinnar á Laugarvatni kostar 300 milljónir króna að gera við og endurnýja mannvirki á vegum skólans á Laugarvatni, en um 20 milljónir að fullgera aðstöðu fyrir kennara í Reykjavík. Fjölbreytt aðstaða yrði leigð í Reykjavík og er talið að rekstrarkostnaður á ári þar yrði nálægt 10 milljón krónum lægri en á Laugarvatni. Velunnarar námsins á Laugarvatni hafa bent á að þessi samanburður á kostnaði við mannvirki sé ósanngjarn. Viðhaldi hafi ekki verið sinnt á Laugarvatni um árabil. Ekki sé brýn þörf á að breyta herbergjum fyrir nemendur fyrir 150 milljónir. Loks er fjórðungur kostnaðar ætlaður í nýja sundlaug. Uppi hefur verið umræða um árabil, hvort sundlaug á Laugarvatni eigi að vera á forræði Háskólans eða sveitarfélagsins.

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV