Þingmenn fá tæplega tvöfalt meira en öryrkjar

03.12.2018 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Alþingismenn fá hátt í tvöfalt meira í orlofs- og desemberuppbót en tekjulægstu örorkulífeyrisþegar. Laun þingmanna munu hækka árlega jafnmikið og laun annarra ríkisstarfsmanna hækka að meðaltali, að því er kemur fram í frumvarpi fjármálaráðherra. 

Björn Leví Gunnarsson, þingamaður Pírata, birti launaseðilinn sinn á Facebook í gær. Þar kemur fram að þingmenn fá greiddar 181.050 krónur í svonefndar persónuuppbót sem er bæði desember- og orlofsuppbót. Þetta er 44.000 krónum hærri tala en félagar þeirra stéttarfélaga, sem semja við Samtök atvinnulífsins.

Fréttastofa hafði samband við Tryggingastofnun. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar fá einhleypir örorkulífeyrisþegar sem hafa engar tekjur 96.120 krónur samtals í orlofs- og desemberuppbót frá Tryggingastofnun. Þessi hópur er því að fá  85.000 krónum minna en þingmenn í uppbót. 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um launahækkanir hjá kjörnum fulltrúum og æðstu embættismönnum. Það á koma í stað ákvarðana kjararáðs. Samkvæmt frumvarpinu eru laun kjörinna fulltrúa þau sömu og kjararáð ákvarðaði þeim á kjördag í október 2016, frá rúmlega einni upp í tæpar þrjár milljónir króna. Launin eiga svo að hækka 1. júlí ár hvert. Launahækkunin byggist á útreikningum Hagstofunnar á meðaltali launahækkanna hjá ríkisstarfsmönnum. Verður þar miðað við hækkun á reglulegum launum en ekki yfirvinnu og öðrum óreglulegum greiðslum.

Mynd með færslu
 Mynd:
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi