Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þingmenn D- og M-lista sakaðir um málþóf

23.03.2018 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enn liggur ekki fyrir hvenær og hvort atkvæði verða greidd um frumvarp um lækkun kosningaaldurs í 16 ár sem rætt hefur verið á Alþingi við þriðju umræðu meira og minna í allan dag. Fyrsti flutningsmaður óttast að verið sé að reyna að koma í veg fyrir að málið gangi til atkvæðagreiðslu og því falli það niður. Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sakar þingmenn Sjálfstæðis- og Miðflokks um málþóf.

Andstæðingar þess að samþykkja frumvarpið nú gagnrýna helst að tíminn fram að sveitarstjórnarkosningum í vor sé allt of skammur og lítið svigrúm til undirbúnings. Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins lagði fram breytingartillögu í þeim tilgangi að fresta gildistöku frumvarpsins til 31. desember 2019.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, fer hörðum orðum um ástandið á þinginu á Facebook. Hún segir miðaldra karla úr Sjálfstæðisflokki og Miðflokki halda uppi málþófi til að koma í veg fyrir að málið nái fram að ganga.

„Það var í raun sérstaklega sorglegt líka að á sama tíma sat hópur ungmenna á pöllunum og má ætla að þetta hafi verið þeirra fyrstu kynni af stjórnmálaumræðu, umræðu um það hvort leyfa eigi þeim að kjósa eða ekki,“ skrifar Helga Vala.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV