Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þingmaður Viðreisnar segir marga bolta á lofti

Mynd: RÚV / RÚV
Þingmaður Viðreisnar segist ekki vita hvort viðræður formanns flokksins, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leiði til þess að flokkarnir þrír reyni aftur við formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Formaður Samfylkingarinnar segir að flokkurinn sé ekki gerandi.

Fram kom í fréttum RÚV  í gær að formenn flokkanna þriggja hefðu rætt saman og taldar voru auknar líkur á því að þeir myndu hefja formlegar viðræður að nýju. Seinna bárust fréttir af því að að þingflokkur Viðreisnar hefði verið kallaður saman til fundar. 

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, segir að formennirnir hafi rætt saman en  hún viti ekki hvort það verður eitthvað meira úr því - stemningin væru þannig að menn væru með marga bolta á lofti.

Hún segir það misskilning að þingflokkurinn hefði meinað fjölmiðlum aðgang að þinghúsinu í gær. „Ég ætla eiginlega að biðjast afsökunar á þessum misskilningi. Þetta var aldrei meiningin. Það var hins vegar ekkert fréttnæmt í gangi heldur vorum við bara að biðja um að fá að funda í friði í þingflokksherberginu og mistókst að koma þeim skilaboðum frá okkur. “

Hún segir að fundurinn hafi snúist um að einhverjar þreifingar hefðu verið í gangi. „Og síðast strönduðu viðræðurnar á einhverjum málefnum og við vorum bara að taka annan snúning á þeim.“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að flokkurinn sé enginn gerandi og ekkert sé í gangi varðandi stjórnarmyndun í kringum hann eins og sakir standa. „Sjálfur hef ég talað um að það hafi verið ótímabært að slíta viðræðum flokkanna fimm. Af því að ég sá einhvern grundvöll fyrir samstarfi þar - af því að þetta snýst um hvaðan þú horfir á hlutina.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Hönnu Katrínu og Loga í spilaranum hér að ofan.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV