Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þingmaður telur að reka eigi dósent

10.11.2011 - 11:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Grein sem Eiríkur Bergmann, dósent við Háskólann á Bifröst, er með þeim hætti að hún ætti að vera ástæða til að vísa honum úr starfi við háskólann, segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Vigdís ritar aðsenda grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hún leggur þar út af grein sem Eiríkur ritaði í Fréttatímann um síðustu helgi. Þar fjallaði um þjóðernishyggju og hægriöfgahreyfingar. Umfjöllunin skiptist í fjóra hluta á einni síðu og í einum hlutanum fjallar hann um þjóðernishyggju á Íslandi og vitnar til hreyfinga sem hafa unnið á þeim grunni. Hann tiltekur þar Frjálslynda flokkinn í kosningunum 2007 og segir svo að í allra síðustu tíð hafi „Framsóknarflokkurinn svo eilítið farið að daðra við þjóðernisstefnuna“, og segir breytingar á merki flokksins (sem var reyndar merki flokksþings Framsóknarflokksins) vísa í klassísk fasísk minni auk þess sem áhersla hafi verið lögð á að sýna þjóðleg gildi á fundum flokksins. „Orðræða sumra þingmanna hefur í auknum mæli einkennst af hollustu við þjóðernið,“ skrifaði Eiríkur. Enn sé þó ekki ljóst hvort flokkurinn ætli sér að sækja enn lengra inn í þetta mengi.

Þetta fór fyrir brjóstið á þingflokki Framsóknarflokksins sem sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins og sór af sér þjóðernishyggju og hægriöfgar.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður flokksins, skrifar svo grein í Morgunblaðið í dag þar sem hún fer hörðum orðum um Eirík og skrif hans. Hún segir Háskólann á Bifröst bera ábyrgð á „Evrópusambandssinnanum sem sakar íslenskan stjórnmálaflokk um hatur á útlendingum“ og segist hallast að því að háskólinn hafi fengið ókeypis auglýsingu á sömu síðu og Eiríkur skrifaði „út á andlit og skoðanir Eiríks Evrópusambandssinna í gegnum sjóð þann sem sér um að greiða doktornum laun og uppihald í Evrópuáróðrinum“. 

Vigdís segir Evrópusambandssinna keyra spuna sinn í botn og grípa til allra bragða. „Grein þín í Fréttatímanum liðna helgi er til marks um það - að grípa til þeirra bragða sem þú notaðir þar - ætti að vera ástæða til að vísa þér úr starfi í Háskólanum á Bifröst. Þar ferðu yfir öfgahreyfingar í Evrópu og á Norðurlöndunum og lýsir hatri þeirra á innflytjendum. Þú ferð einnig yfir hin hræðilegu Úteyjarmorð og berð þetta svo allt saman við Framsóknarflokkinn og telur hann hafa breyst í þessa átt hin allra síðustu ár,“ segir Vigdís og kveðst fyllast viðbjóða við þá samlíkingu. „Ég skora á skólastjórn Háskólans á Bifröst og rektor skólans að fara yfir hegðun doktor Eiríks sem starfsmanns ríkisstyrkts skóla. Ekki doktorsins vegna - heldur vegna orðstírs Háskólans á Bifröst.“