Þingmaður fékk 4,6 milljóna akstursgreiðslur

08.02.2018 - 15:47
Þingmaður Samfylkingar. Myndin frá janúar 2018.
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Sá þingmaður sem fékk mestan aksturskostnað endurgreiddan frá Alþingi í fyrra fékk rúmar 4,6 milljónir, sem eru um 385 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Heildarendurgreiðslur vegna aksturskostnaðar þingmanna í fyrra námu tæpum 30 milljónum króna, sem er um helmingi minna en árið 2013.

Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn þingmannsins Björns Levís Gunnarssonar, Pírötum. Björn Leví spurði um aksturskostnað þeirra þriggja þingmanna hvers kjördæmis sem mest fengu endurgreitt, sundurliðað á mánuði og ár.

Svar þingforseta er ekki svo ítarlegt. Í því segir að almennt hafi ekki verið veittar persónugreinanlegar upplýsingar um þessar endurgreiðslur, enda sé litið svo á að aksturinn tengist starfi þingmanna fyrir umbjóðendur þeirra og varði samband þeirra við kjósendur. Upplýsingarnar eru ekki heldur greindar niður á kjördæmi „enda þykir þá farið nærri persónugreinanlegum upplýsingum“, segir í svarinu.

Toppgreiðslan farið úr 7,4% í 15,8% af heildinni

Í svarinu eru þó birtar tíu hæstu endurgreiðslur hvers árs frá 2013 til 2017, án þess að nöfn fylgi, og heildarendurgreiðsla hvers árs. Þar má sjá að hæsta endurgreiðslan ár hvert hefur numið frá 4,4 milljónum árið 2013 upp í mest 5,4 milljónir árið 2014. Tíu hæstu greiðslurnar í fyrra voru sem hér segir:

  1. 4,62 milljónir
  2. 3,46 milljónir
  3. 3,09 milljónir
  4. 2,77 milljónir
  5. 2,55 milljónir
  6. 2,47 milljónir
  7. 2,37 milljónir
  8. 1,93 milljónir
  9. 1,37 milljónir
  10. 1,14 milljónir

Heildarkostnaðurinn hefur hins vegar hrunið frá árinu 2013. Í fyrra nam hann rúmum 29 milljónum en tæpum 60 milljónum árið 2013. Þetta sést líka ef horft er neðar á topp 10 listana. Tíunda sætið í fyrra fékk 1,14 milljónir endurgreiddar, en tíunda sætið árið 2014 fékk 2,7 milljónir. Þetta þýðir þó líka að hæsta endurgreiðslan var í fyrra mun hærra hlutfall af heildarkostnaðinum, 15,8% samanborið við 7,4% árið 2013.

Suðurlandið drýgst

Ástæðan fyrir þessum lækkaða heildarkostnaði er sú að leitast hefur verið við að velja hagkvæmari ferðamáta en áður, að því er segir í svarinu. Þingmenn fljúgi frekar til og frá höfuðborgarsvæðinu en að nota eigin bíla og noti frekar bílaleigubíla en sína eigin í borginni, aki þeir umfram 15 þúsund kílómetra á ári.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir í samtali við fréttastofu að þingmenn af Vestfjörðum og að norðan og austan fljúgi nú nær eingöngu heim í kjördæmi – þingmenn fái afslátt af flugferðum – og eðlilega sé aksturinn langmestur í Suðurkjördæmi. Það sé enda langvíðfeðmasta kjördæmið auk þess sem þangað sé lítið áætlunarflug.

Þá bendir Helgi á að aksturskostnaður geti verið töluverður í tilviki þingmanna sem búa nálægt höfuðborgarsvæðinu – á Reykjanesi, í Borgarfirði eða til dæmis á Selfossi – sem aki til og frá vinnu daglega en fái í staðinn mun minni húsnæðiskostnað greiddan, eins og landsbyggðarþingmenn eiga rétt á. Þetta séu svokallaðir „heimanakstursmenn“. Af öllum þessum sökum segi aksturskostnaðartölurnar alls ekki alla söguna um það hversu dýrir þingmenn séu í rekstri, ef svo megi að orði komast.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi