Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þingkosningar í Norður Kóreu í dag

10.03.2019 - 03:18
Mynd með færslu
Beðið eftir sporvagni í PjongJang Mynd:
Norður-Kóreubúar ganga til kosninga í dag. Eins og jafnan á fimm ára fresti kjósa íbúar Alþýðulýðveldisins Norður Kóreu 687 fulltrúa á æðsta þing alþýðunnar. Lítil spenna ríkir þó um úrslit, kosningaþátttöku eða annað sem víða fylgir þingkosningum.

Einn í framboði í hverju kjördæmi

Kosið er í einmenningskjördæmum, og aðeins eitt nafn er á kjörseðlinum í hverju kjördæmi. Kjósendum er heimilt að strika yfir nafn hans, en aðeins í vitna viðurvist. Allir frambjóðendur - og þar með allir þingmenn - tilheyra Lýðræðisfylkingunni fyrir sameiningu föðurlandsins.

Í þeirri merku fylkingu eiga fulltrúar Verkamannaflokks Norður Kóreu nær 90 prósent þingsæta vís, afgangurinn skiptist á milli tveggja smáflokka sem hafðir eru til skrauts en fylgja Verkamannaflokknum og æðsta leiðtoga hans, Kim Jong-Un, í einu og öllu.

Íbúum er skylt að nýta atkvæðisrétt sinn, og því er kosningaþátttaka iðulega um eða yfir 99.9 prósent, en fólk sem er erlendis eða á hafi úti á kjördag er undanþegið kosningaskyldunni.

Valdalaust löggjafarþing

Þrátt fyrir nafnið hefur æðsta þing alþýðunnar næsta lítil ef nokkur völd í Norður Kóreu. Þótt formlega eigi að heita að það fari með löggjafarvaldið í landinu, kjósi framkvæmdavaldið, yfirfari og afgreiði fjárlög ríkisins og fleira, þá hefur það ekki umboð til að leggja fram eigin lagafrumvörp og hefur það hlutverk helst að kvitta upp á og lofa og prísa allt sem frá Kim Jong-Un og ríkisstjórn hans kemur. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV