Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þingkosningar á Grænlandi

Mynd: Grænlenska landsstjórnin / Grænlenska landsstjórnin
Skoðanakönnun fyrir þingkosningar á Grænlandi 24. apríl bendir til að ekki hafi orðið miklar breytingar á fylgi stærstu flokka frá síðustu kosningum haustið 2014. Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, ákvað að efna til kosninga nú þó að kjörtímabilið renni ekki út fyrr en í haust. Kielsen tilkynnti þetta á blaðamannafundi sem boðað var til með skömmum fyrirvara. 

IA stærsti flokkurinn

Stóru flokkarnir tveir, sósíalistaflokkurinn Inuit Ataqatigiit, eða IA og jafnaðarmannaflokkurinn Siumut, fengju jafn mörg þingsæti. Þó hafa gerst þau tíðindi að IA er spáð ívið meira fylgi en Siumut. Flokkarnir sitja saman í stjórn ásamt miðjuflokknum Partii Naleraq, sem Hans Enoksen stofnaði eftir að hann gekk úr Siumut snemma árs 2014. Enoksen var leiðtogi Siumut og formaður landsstjórnarinnar frá 2002 til 2009. Þá sagði hann af sér formennsku í Siumut eftir ósigur í kosningum.

Tilgangslaust vorþings

Kim Kielsen boðaði óvænt til kosninganna í byrjun mars. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem var forseti Vestnorræna ráðsins 2013-2016, og þekkir mjög til grænlenskra stjórnmála, segir að Kielsen hafi lýst yfir að þýðingarlaust væri að halda vorþing, það myndi bara leysast upp í kosningabaráttu. Öllum málum var því frestað. Meðal frumvarpa sem bíða nýs þings í haust er umdeilt sjávarútvegsfrumvarp. Samkvæmt frétt grænlenska blaðsins Sermitsiaq þarf að legga fram að nýju öll frumvörp sem sem frestað var.

Öruggur meirihluti stjórnarinnar

31 þingmaður situr á Landsþingi Grænlands í Nuuk, Inatsisartut. Eftir síðustu kosningar haustið 2014 myndaði Kim Kielsen stjórn með Demókrötum og hægriflokknum Atassut. Deilur stjórnarflokkanna urðu henni að aldurtila í október 2016. Þá tók við núverandi stjórn, IA og Partii Naleraq gengu til samstarfs við Siumt og Kielsen hélt áfram sem formaður landsstjórnarinnar. Stjórnin var með öruggan meirihluta á landsþinginu. Hún nýtur stuðnings 24 þingmanna af 31. 

Nýir flokkar skapa óvissu

Flokkarnir sem nú bjóða fram ganga óbundnir til kosninga að því er Unnur Brá segir og segir að tveir nýir flokkar skapi ákveðna óvissu í grænlenskum stjórnmálum. Nýju flokkarnir eru hægrisinnaður sambandsflokkur og Nunatta Qitornai (Erfingjar landsins) en formaður þess flokks er Vittus Qujaukitsoq, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem klauf sig út úr Siumut í fyrra. 

Aleqa Hammond gæti sett strik í reikninginn

Það styrkir Vittus og flokk hans að Aleqa Hammond gekk til liðs við flokkinn og býður sig fram í kosningunum nú. Hammond var formaður Siumut og landsstjórnarformaður 2013-14 og situr nú á Þjóðþinginu í Kaupmannahöfn. Hún er umdeild og hefur verið sökuð um spillingu og vafasama meðferð almannafjár en Unnur Brá segir að Hammond njóti mikils persónufylgis, einkum í dreifðari byggðum. 

Fáar konur í framboði

Kuupik Kleist, fyrrverandi leiðtogi IA og landsstjórnarformaður 2009-2013 bendir á í grein í Sermitsiaq að innan við þriðjungur frambjóðenda eru konur. Það finnst mörgum skrítið í ljósi þess að úrslit sveitarstjórnarkosninga í fyrra virtust benda til þess að staða kvenna í grænlenskum stjórnmálum væri að styrkjast eins og Inga Dóra Markussen, þáverandi framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, sagði þá í viðtali við Spegilinn. Unnur Brá bendir þó á að ekki sé ljóst hversu margar konur verði á nýja þinginu því þeir sem setjist í landsstjórnina láti af þingmennsku.

Tekist á um mörg mál

Unnur Brá segir að sjálfstæðismál hafi ekki verið aðalmál kosningabaráttunnar til þessa, tekist hafi verið á um mörg mál. Nefna megi sjávarútvegsmál, erfiða framfærslu, sjálfsvíg ungs fólks og menntamál. Hún bendir á að margir telji að betri menntun sé nauðsynleg áður en sjálfstæði geti talist raunhæft. Hún vitnar í skrif Rasmus Gjedssø Bertelsen, sem er prófessor við háskólann í Tromsö. Bertelsen er norðurslóðasérfræðingur, að hluta alinn upp á Íslandi. Unnur Brá segir Bertelsen vísa til íslenskrar sögu í umræðu um sjálfstæði Grænlands. Hann segir að það þurfi að vera pólitískur vilji, þjóðin verði að vera nægilega menntuð til að geta sinnt helstu störfum og svo þurfi að vera efnahagslegur grundvöllur fyrir sjálfstæði.