Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þingið standi í lappirnar gagnvart forseta

09.09.2015 - 10:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Birgitta Jónsdóttir, Kapteinn Pírata, segir að það sé til skoðunar að skora á einhvern í forsetaframboð sem myndi sýna stjórnarskrárbreytingum virðingu. Hún er ósátt við setningarræðu forsetans á Alþingi í gær og segir að þingið verði að standa í lappirnar gagnvart forsetanum.

Birgitta hóf ræðu sína í gær á því að svara gagnrýni Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á áform um breytingar á stjórnarskrá í ræðu sem hann flutti við setningu Alþingis í gær. Hann eigi ekki að skipta sér af því hvernig þingmenn hagi þingstörfum.

Píratar ekki rætt forsetaframboð

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur vitnaði til ræðu Birgittu á Facebook í gær og sagði að það stefndi í spennandi forsetakosningar ef Píratar væru með forsetaframbjóðanda á takteinum. Birgitta segir að Píratar hafi ekki rætt þetta innan sinna raða. Hún segist hins vegar tilheyra félagsskap og grasrótarsamtökum sem láta sig stjórnarskrána varða og þar hafi þetta borið á góma. „Ég veit að þar á meðal er verið að skoða hvort það væri hægt að skora á einhvern kandídat sem myndi sýna þessu mikilvæga ferli, er lýtur að stjórnarskrárbreytingum, virðingu.“ Birgitta segir að ekki hafi verið leitað til sín og hún gangi hvorki með forseta né forsætisráðherra í maganum. 

„Ég veit ekki eiginlega til hverra hann var að tala“

Til stendur að kjósa um stjórnarskrárbreytingar samhliða forsetakosningum. Birgitta segir að það kæmi ekki á óvart ef forsetakosningar næsta vor myndu snúast að miklu leyti um stjórnarskrárbreytingar. „Ég veit ekki eiginlega til hverra hann var að tala. Mér þótti þetta frekar einkennileg ræða út af því að þau ákvæði sem er verið að vinna að í stjórnarskrárnefndinni, þau hafa ekkert mikil áhrif á forsetaembættið. Það er aftur á móti í tillögum að nýrri stjórnarskrá eru töluvert miklar breytingar sem tengjast forsetaembættinu. Það hefur aðeins verið fjallað um hvort að ef að málskotsrétturinn færi til þings og þjóðar að það væri óþarfi að forsetinn hefði málsskotsréttinn en það hefur ekkert verið til lykta leitt og mér finnst mjög ólíklegt að Píratar myndu styðja það að taka málsskotsréttinn af forsetanum. Fyrst þurfum við að ná því að koma honum til þjóðarinnar,“ segir Birgitta.