Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þingið ákveði hvort afnema eigi verðtryggingu

30.07.2016 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, vill að lagt verði fram þingmannafrumvarp á haustþingi um afnám verðtryggingar. Sjálfstæðismenn hafi stöðvað málið í ríkisstjórn.

Vill láta reyna á vilja þingmanna

Silja Dögg sagði í Vikulokunum á Rás 1 að málið væri búið að hanga yfir þinginu allt kjörtimabilið. Nú þyrfti að láta á reyna. „Ég trúi því að það séu þingmenn úr öðrum flokkum sem séu í liði með okkur varðandi verðtryggingu og afnám hennar. Við þurfum bara að leggja þetta fyrir þingið. Við þurfum að koma þessu fram. Ég hefði viljað sjá frumvarp þessa efnis miklu fyrr,“ segir Silja Dögg. Hún segist hafa talað fyrir afnámi verðtryggingar frá því áður en hún settist á þing.  Hún vill að þingið taki umræðu um verðtryggingarmálin og láti reyna á hvað stjórnmálamönnum sem þar sitja finnist um þau og hvað þeir vilja gera.

Sjálfstæðismenn andsnúnir

Hefur Sjálfstæðisflokkurinn stoppað þetta?
„Já augljóslega. Það vita það allir. Látum reyna á þetta. Ég tala enn þá fyrir afnámi verðtryggingar og ég geri það sem ég get til þess að það nái í gegn.“ 
Hefur þetta verið rætt sérstaklega í þingflokknum?
„Já, það eru fleiri en ég sem eru á þessari skoðun,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samflykingarinnar lagði þ. 21. janúar fram þingmannafrumvarp um afnám verðtryggingar. Sigríður segir að framsóknarmenn hafi ekki sýnt frumvarpi hennar neinn áhuga og það fékkst ekki rætt í þinginu. 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV