Þingfundi slitið á sjötta tímanum í morgun

27.02.2019 - 05:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Klukkan 19 mínútur yfir fimm bauð forseti Alþingis þingmönnum Miðflokksins að halda áfram annarri umræðu um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál þar til þing hefst að nýju í dag. Þingmenn Miðflokksins höfðu beitt málþófi vegna málsins í rúmar fjórtán klukkustundir þegar þingfundi var slitið.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, bað þá um orðið og sagðist vilja halda áfram umræðum í dag ef fjármálaráðherra sæi sér fært að vera viðstaddur umræðurnar. Steingrímur J. Sigfússon, þingforseti, sagði það þegar hafa verið ákveðið að leita til starfandi fjármálaráðherra, í fjarveru Bjarna Benediktssonar, til að athuga hvort hann geti verið viðstaddur umræðurnar í dag. Fundi var slitið klukkan 5:20 í morgun, og er næsti þingfundur samkvæmt dagskrá klukkan 15 í dag.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi