Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þingforseti sviptur völdum

28.04.2017 - 17:56
epa05579492 President of the Council of Europe (PACE), Pedro Agramunt announces the Vaclav Havel Human Rights Prize in the Council of Europe in Strasbourg, France, 10 October 2016. A former IS prisoner Nadia Murad was awarded with the prize. The 23-year
Pedro Agramunt hefur beðist afsökunar á að hafa átt fund með Bashar al-Assad Sýrlandsforseta. Mynd: EPA
Forsætisnefnd þings Evrópuráðsins samþykkti í dag að svipta Pedro Agramunt þingforseta völdum. Hann hafði það helst til saka unnið að taka sér ferð á hendur til Sýrlands í síðasta mánuði, þar sem hann hitti Bashar al-Assad Sýrlandsforseta að máli.

Agramunt var endurkjörinn forseti þings Evrópuráðsins til eins árs í janúar síðastliðnum. Hann hefur sætt gagnrýni fyrir að taka lítt eða ekki á spillingu innan þingsins, að því er kemur fram í frétt Guardian í dag. Það sem gerði þó útslagið er að hann fór í síðasta mánuði til Sýrlands til þess að skoða þar rússneska herstöð. Í ferðinni hitti hann Bashar al-Assad forseta að máli.

Agramunt segist hafa orðið mjög hissa þegar Assad birtist allt í einu í herstöðinni. Hann hefur beðist afsökunar á að hafa átt með honum fund, en neitar að verða við kröfunni um að láta af embætti. Forsætisnefndin er hins vegar hörð á því að gjörðir þingforsetans séu óafsakanlegar. Hlutverk þingsins sé að fylgjast með því að lýðræði, mannréttindum og leikreglum réttarríkisins í aðildarríkjunum 47 sé fylgt. Það samrýmist ekki stöðu þingforsetans að eiga fund með manni sem sakaður sé um stríðsglæpi í heimalandinu.

Því var ákveðið í dag að banna Pedro Agramunt að fara í opinberar heimsóknir í nafni Evrópuráðsins eða senda frá sér yfirlýsingar af neinu tagi í þess nafni.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV