Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þingflokkarnir bera saman bækur sínar í kvöld

11.12.2016 - 08:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samfylking, Píratar, Vinstri grænir, Björt framtíð og Viðreisn halda áfram óformlegum viðræðum sínum í dag. Gert er ráð fyrir að undirhópur fari yfir sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál í dag. Í kvöld ætla þingflokkar flokkanna síðan að ráða ráðum sínum og eftir þau fundarhöld gæti dregið til tíðinda.

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir að það eigi að liggja fyrir í kvöld eða í síðasta lagi á morgun hvort af formlegum stjórnmyndunarviðræðum verður. „Við munum greina frá niðurstöðum þessarar lotu - hvort að það verði haldið áfram eða ég fari til Guðna og skili umboðinu - á mánudaginn í síðasta lagi.“ Þýðir það að það komi í ljós í síðasta lagi á mánudag hvort það verði mynduð ríkisstjórn þessara fimm flokka? „Já ég myndi segja það.“ 

Bæði Birgitta og Smári McCarthy, þingmaður Pírata, lýstu því yfir í gær að þau væru bjartsýn á framhaldið. Smári sagði í Vikulokunum á Rás 2 að það myndi koma honum mjög á óvart ef þessar viðræður gengju ekki upp - flokkarnir væru komnir lengra á veg en þegar þeir ræddu saman síðast um myndun nýrrar ríkisstjórnar.  Þessu ummæli komu Birni Val Gíslasyni, varaformanni VG, nokkuð á óvart.  „Ég vildi eiginlega gjarnan að Smári fengi aftur orðið og útskýrði fyrir okkur hversu langt þetta væri komið og hvenær væri þá von á ríkisstjórn,“ sagði Björn Valur í Vikulokunum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, vildi í gær ekkert segja til um hvort hún væri jafn bjartsýn og Píratar - engar fastmótaðar tillögur hefðu verið settar fram í þessum viðræðum. „Við erum stödd á þeim stað að við erum ekki komin með neinar fastmótaðar tillögur á borðið og það fer auðvitað að líða að því að við þurfum að fá eitthvað slíkt til þess að geta tekið afstöðu til þess hvort þessar viðræður verði formlegar eða ekki.“

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, tók í sama streng í kvöldfréttum Stöðvar 2. „Þetta er náttúrulega þeirra mat og þau eru með stjórnarmyndunarumboðið. Ég hef verið í þessum sömu sporum í viðræðum fyrr í haust og í bæði skiptin var ég mjög bjartsýnn á að þetta myndi takast og svo rann það út í sandinn.“  

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV