Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þingeyjarsveit komst áfram

02.12.2016 - 21:26
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Lið Þingeyjarsveitar tryggði sér sæti í annarri umferð spurningakeppninnar Útsvars í kvöld með því að bera sigurorð af liði Snæfellsbæjar. Lokatölur urðu 76-43 fyrir Þingeyjarsveit. Keppendur liðsins fögnuðu sigri en börmuðu sér, alla vega í orði kveðnu, yfir því að hafa hlotið of mörg stig.

Lið Snæfellsbæjar skipuðu þau Hafdís Rán Brynjarsdóttir, Örvar Marteinsson og Halldór Kristinsson. Fyrir Þingeyjarsveit kepptu þau Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Hanna Sigrún Helgadóttir og Þorgrímur Daníelsson.

Stigahæstu tapliðin þegar aðeins ein umferð er eftir eru Árborg (72), Hornafjörður (60), Hafnarfjörður (59) og Fljótsdalshérað (54). Það er því aðeins Fljótsdalshérað sem getur dottið út af þessum liðum. Það ræðst í viðureign Vestmannaeyja og Kópavogs í næstu viku.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV