Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Þetta var náttúrlega hryllileg aðkoma“

27.12.2018 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd:
„Þetta var náttúrlega bara hryllileg aðkoma,“ segir Adolf Ingi Erlingsson leiðsögumaður sem var meðal þeirra fyrstu sem komu að slysstaðnum, þar sem þrír létust. Sjö voru farþegar í jeppabifreið sem steyptist fram af brúnni yfir Núpsvötn í morgun.

Adolf Ingi var á austurleið þegar lögreglubílar tóku fram úr honum á leið að slysstað. Hann hafi síðan stoppað og boðið aðstoð sína. Hann segir bílinn hafa verið mjög illa farinn. „Bíllinn í mauki eftir að hafa flogið þarna fram af brúnni, fólk fast inni í bílnum og aðrir komnir út þegar ég kom þarna að. Þetta var bara, já, hryllileg aðkoma.“

„Ég stoppaði svo bara til að athuga hvort ég gæti eitthvað aðstoðað,“ segir Adolf Ingi. Hann hafði aðstoðað við að ná þeim út sem sátu fastir í bílnum og kannað hvort þeir væru með lífsmarki. „Við erum í því bara að reyna að ná þeim út sem eru fastir þar og komast að því hvort það sé lífsmark með þeim eða ekki. Eins að hlúa að þeim sem voru komnir út úr bílnum og reyna að láta þeim líða sem skást, og bara hjálpa þeim.“