Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Þetta var mjög furðulegur fundur“

14.08.2017 - 14:42
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Fulltrúar meirihlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákváðu að kynna sér ekki gögn sem varða uppreist æru Roberts Downey, dæmds kynferðisbrotamanns og lögfræðings, og lágu fyrir fundi nefndarinnar í dag. Minnihlutinn hyggst fara fram á álit frá yfirlögfræðingi Alþingis um það hvernig haga skuli umfjöllun nefndarinnar um trúnaðarmál sem stór hluti hennar neiti að kynna sér. „Þetta var mjög furðulegur fundur,“ segir Píratinn Birgitta Jónsdóttir.

Fyrir fundinum lá að fjalla um verklag við uppreist æru og kynna sér gögn, annars vegar almenn gögn frá dómsmálaráðuneytinu um það hvernig farið er með mál af þessu tagi og talnagögn því tengd, og hins vegar þrjú meðmælendabréf með umsókn Roberts Downeys.

Birgitta segir að hún sé bundin trúnaði um innihald meðmælendabréfanna og hverjir rita undir þau. „Á þeim hvílir gríðarlega mikil leynd eins og þetta séu kjarnorkukóðar fyrir Bandaríkin,“ segir hún. „En það er ekkert í þeim sem ætti að falla undir einhvern persónuverndarlög að mínu mati, af því að þetta er allt mjög almennt orðað.“

Flækir málið ef sumir kynna sér ekki gögnin

Þegar nefndarmönnum var boðið að kynna sér gögnin að viðlögðum trúnaði ákváðu fjórir fulltrúar meirihlutans að yfirgefa fundarherbergið án þess að skoða gögnin – allir nema formaðurinn Brynjar Níelsson, sem hafði enda tekið við gögnunum og þegar kynnt sér þau.

„Sem þýðir það þá að það verður mjög flókið fyrir okkur að vinna áfram með þetta mál nema þá að þau fallist á að sjá þessi bréf,“ segir Birgitta. „Þegar við förum út í það að spyrja ráðuneytið nánar út í framkvæmdina, byggt á því sem við sáum í þessum bréfum, þá verður mjög erfitt fyrir meirihlutann að taka þátt í því, nema formann nefndarinnar sem tók við þessum bréfum. Hvernig geturðu framfylgt alvöru eftirliti Alþingis með framkvæmdavaldinu ef þú ert ekki tilbúinn til að vinna vinnuna – bara víkur af fundi?“ spyr Birgitta.

Minnihlutinn hyggst óska eftir áliti frá yfirlögfræðingi þingsins um það hvernig rétt sé að snúa sér í framhaldinu – hvernig nefndin eigi að fjalla um málið þegar um helmingur nefndarmanna vill ekki kynna sér gögn sem umræðan grundvallist á.

Brynjar Níelsson segir hins vegar að þar sem gerðist á fundinum hafi ekki verið óeðlilegt. „Það sem gerist er að í lok fundarins er spurt hverjir vilja sjá þessi trúnaðargögn og það voru bara sumir nefndarmenn sem vildu það og aðrir höfðu ekkert að gera á fundinum,“ segir nefndarformaðurinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV

„Er að lýsa vantrausti á menn daginn út og daginn inn“

Birgitta er mjög óánægð með það hvernig Brynjar hefur haldið á málinu og lýsir vantrausti á hann. „Já, ég geri það. Það er bara algjört stjórnleysi í nefndinni og mér finnst formaður nefndarinnar ekki hafa höndlað þetta mál sérstaklega vel. Ég er ekki viss um að ég treysti mér til að sitja í þessari nefnd með hann sem formann,“ segir hún og bætir við að venjan sé að stjórnarandstæðingur stýri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þetta mál sýni fram á mikilvægi þess og að óskað hafi verið eftir því að forsætisnefnd Alþingis taki stöðuna sem upp er komin til sérstakrar umfjöllunar.

Brynjar tekur yfirlýsingar Birgittu hins vegar ekki til sín. „Hún er að lýsa vantrausti á menn daginn út og daginn inn – hún verður að fá að hafa sína hentisemi með það,“ segir hann og kannast ekki við að hann hafi sýnt af sér neina þá hegðun sem kalli á þessi viðbrögð hennar.

Á fundinum var ákveðið að boða til framhaldsfundar með embættismönnum dómsmálaráðuneytisins um verklagið við uppreist æru, auk þess sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra verður boðuð á fund nefndarinnar til að fara yfir hugmyndir sínar um breytingar á verklaginu.

Uppfært kl. 15.57:
Minnihlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur sent frá sér sameiginlega bókun sem fer hér að neðan:

„Fulltrúar VG, Pírata, Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lýsa áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin við umfjöllun nefndarinnar um reglur um uppreist æru og því stjórnleysi sem ríkir í nefndinni. Áður en meðmælabréf um uppreist æru voru lögð fram í trúnaði, á fundi nefndarinnar í dag, gengu allir fulltrúar stjórnarmeirihlutans út af fundinum, nema formaður nefndarinnar. Umrædd meðmælabréf vöktu nýjar spurningar um framkvæmd laganna af hálfu ráðuneytis og ráðherra og því vandséð að fulltrúar meirihlutans geti fjallað um málið í nefndinni í framhaldinu.

Á fundinum óskuðu fulltrúar minnihlutans eftir:

  • Nánari greiningu á gögnum sem fylgt hafa beiðnum um uppreist æru á undanförnum árum og afgreiðslu þeirra.
  • Upplýsingum um ferli sambærilegra mála í nágrannalöndunum og að fulltrúar dómsmálaráðuneytisins komi sem fyrst á fund nefndarinnar til að svara spurningum sem vaknað hafa um feril mála um uppreist æru og stjórnsýsluhætti.
  • Að sá hópur sem gagnrýnt hefur ferlið á undanförnum misserum komi á fund nefndarinnar til að reifa sín sjónarmið milliliðalaust.
  • Minnisblaði frá yfirlögfræðingi Alþingis um stöðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar fjórir nefndarmenn hafa neitað að taka við gögnum sem eru á dagskrá nefndarinnar og þar með hafa áhrif á næstu skref í umfjöllun um uppreist æru.
  • Að forsætisnefnd fjalli um þá stöðu  sem upp er komin í nefndinni í ljósi þess að nefndin fer með afar mikilvægt hlutverk gagnvart almenningi og þinginu og á samkvæmt lögum að „kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu“. Þetta hlutverk getur ekki verið valkvætt fyrir þá fulltrúa sem nefndina skipa.“