Þetta tiltekna partí kveikti ekki í mér

Mynd:  / 

Þetta tiltekna partí kveikti ekki í mér

20.02.2019 - 15:11

Höfundar

Hljómsveitin Bagdad brothers hefur hrifið marga tónlistarunnendur hér á landi síðustu mánuði fyrir sitt melódíska og draumkennda popp sem drifið er áfram af einkennandi gítarómi og sérstökum söngstíl. Borgar Magnason segist þó ekki hafa kveikt á þessu partíi eða að það hafi öllu heldur ekki kveikt í honum.

Hljómsveitin Bagdad brothers er frá Kópavogi en ekki frá Írak eins og einhver gæti haldið. Í grunninn er þetta dúett skipaður þeim Bjarna Daníel Þorvaldssyni og Sigurpáli Viggó Snorrasyni en í fullum skrúða bætast við þau Þóra Birgit Bernódusdóttir, Ægir Sindri Bjarnason og Steinunn Jónsdóttir. Þeir Bjarni og Sigurpáll kynntust í Lindaskóla í Kópavogi og hófu ungir samstarf, byrjuðu á hljóðdrifnu rokki en færðu sig síðan yfir í hreinræktaða popptónlist. Þau Fríða Rós Valdimarsdóttir, Kristína Aðalsteinsdóttir og Borgar Magnason ræddu nýjustu afurð Bagdad brothers í Lestarklefanum á dögunum, plötuna Sorry.

„Þeir taka þarna element úr níunda áratugnum og djamma með það. Taka sig ekki of hátíðlega. Ég las einhvers staðar að þeir dýrkuðu Stuðmenn og maður heyrir það greinilega. Ég gæti trúað því að tónleikar með þeim séu rosa góð partí,“ segir Borgar Magnason sem ekki hafði heyrt mikið til hljómsveitarinnar áður. Borgar segir tónlistina minna á margt eldra og nefnir diskó- og partítónlist. „Þetta er layerað af einhverri endurvinnslu, mikið sem er héðan og þaðan frá tíunda áratugnum, lok síðustu aldar. Tilvísanir hingað og þangað, gítarsándið, djassskotnir hljómar og söngstíllinn. Síðan heyri ég bara Jakob Frímann Magnússon þarna. Ég kveikti ekki á þessu tiltekna partíi, það kveikti ekki í mér,“ segir Borgar.

Fríða Rós Valdimarsdóttir hefði mögulega einhvern tímann átt meira rými fyrir tónlist Bagdad brothers en sagði það mögulega uppurið. „Þetta er ekki mín tónlist, ég verð að viðurkenna það. Stundum gerist það að maður klárar kvóta af einhverju, til dæmis útvíðum buxum. Þessi tónlist er dæmi um kláraðan kvóta hjá mér. Mér finnst þó mjög skemmtilegur léttleiki í þessu hjá þeim, einhver skmemmtilegheit undir. Partíið sem þeir halda eflaust úti á tónleikum, það náði ekki heim til mín. Ég fékk líka þá tilfinningu að ég væri ekki að ná þessu. Er eitthvað nýtt í þessu sem ég er ekki að skynja, eru vinir þeirra að hlusta á þennan þátt núna og eru að skellihlæja?“ spyr Fríða Rós sig.

Kristínu Aðalsteinsdóttur var umhugað um textagerðina og hefði viljað heyra aðeins áleitnari texta við lagasmíðar Bagdad brothers. „Ég hefði haft meira gaman að því ef textarnir væru í andhverfu við hljóðheiminn. Svo finnst mér söngstíllinn eiga það til að verða dálítið einsleitur á köflum. Besta lagið á plötunni er Burt með sumrinu, það er kannski vegna þess að ég skildi textann mest þar. Það er stundum sem hann mallar svona inn í og erfitt er að greina hann,“ segir Kristína Aðalsteinsdóttir.

Tengdar fréttir

Dans

Skóf af bílnum með tilheyrandi danshreyfingum

Tónlist

Lestarklefinn – frá Beirút til Bagdad

Tónlist

Svala og JóiPé x Króli á Aldrei fór ég suður

Tónlist

Frá Bítlum og Brunaliði til Bagdad