Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Þetta snýst um trúverðugleika“

19.03.2016 - 21:34
Vilhjálmur Árnason, stjórnarformaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir að forsætisráðherra hafi farið rangt að með því að upplýsa ekki um aflandseignir. „Bæði þannig að það hefði verið miklu eðlilegra í lýðræðisríki að hann hefði gert grein fyrir þessum tengslum sínum, bæði gagnvart þjóðinni og auðvitað gagnvart sínu samstarfsfólki í stjórnmálum,“ segir hann.

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Vikulokunum á Rás 1 að upplýsingar um aflandsfélag eiginkonu forsætisráðherra væru mjög óþægilegar fyrir Sjálfstæðisflokkinn, samstarfsflokk forsætisráðherra.  

Vilhjálmur Árnason segir að viðbrögðin hafi einnig verið röng, bæði hjá forsætisráðherra og þeim sem hafi talað hans máli. Siðferðilega sé eðlilegt að átta sig á því að þjóðarleiðtogi ætti að gera grein fyrir tengslum af þessu tagi, sem geti haft áhrif á ákvarðanir hans. „Þar með er alls ekki verið að ásaka hann um að hafa tekið ákvarðanir sem voru honum persónulega í hag. Þetta snýst ekki um það, heldur að hann eigi ekki að vera í þeirri stöðu að það sé hægt að draga ákvarðanir hans í efa.“

Samkvæmt reglum um hagsmunaskráningu þingmanna þurfti forsætisráðherra ekki að gefa eignir eiginkonu sinnar upp á vef þingsins. Vilhjálmur segir að það sé ekki endilega nægjanlegt að horfa til skráðra reglna eða laga í svona tilviki. „Þetta snýst um trúverðugleika,“ segir hann. 

Ráðherrann hefur verið harðlega gagnrýndur og jafnvel talað um trúnaðarbrest. „Ég held að það mætti nú alveg segja það að þarna sé ákveðinn trúnaðarbrestur sem að hafi orðið, bæði gagnvart almenningi, bæði gagnvart almenningi og gagnvart samstarfsfólki í stjórnmálum,“ segir Vilhjálmur.