„Þetta eru hetjur“

14.02.2020 - 07:45
Mynd með færslu
 Mynd: Tigull.is
„Þetta var svolítið svakalegt. Ef maður leitaði ekki skjóls þá fauk maður bara,“ segir Katrín Laufey Rúnarsdóttir, ritstjóri bæjarfjölmiðilsins Tíguls í Vestamannaeyjum. Hún var á fréttavaktinni í nótt.

 

„Maður elti björgunarsveitina og var með hjálm og með allar græjur það þýddi ekkert að vera eins og almennur borgari maður þurfti að fylgja reglum.“

Búið var að spá vonskuveðri í Eyjum en það skall á fyrr en búist hafði verið við. Mjög hvasst hefur verið síðan um klukkan hálf tvö í nótt. 

Katrín Laufey er komin inn en sagði í samtali við fréttastofu um klukkan sex að sjá megi björgunarsveitina á ferð að sinna útköllum. „Þetta eru hetjur, þeir eru enn á ferðinni þó að okkur blaðamönnum sé bannað að fara út.“

Vindhraðinn í Eyjum hefur verið um 43 metrar á sekúndu og 57 metrar í mestu hviðunum. Að sögn Arnórs Arnórssonar, formanns Björgunarfélags Vestmannaeyja, hafa útköllin verið vegna fjúkandi grindaverka, þakplatna og klæðninga. Arnór segir að það hafi gengið vel í nótt. Staðan í höfninni er góð og þar stendur lögreglan vaktina.