Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Þetta eru bara náttúruhamfarir“

28.08.2015 - 15:55
Mynd: Rögnvaldur Már / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Siglufjörður - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Mynd með færslu
Þessar myndir tók Andri Freyr á Siglufirði í dag. Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, segir ástandið á Siglufirði jafnast á við náttúruhamfarir - slíkt sé vatnsveðrið. Birgir Ingimarsson, bæjarverkstjóri, telur að tjónið hlaupi á tugum milljóna. Íbúagötur í bænum eru í sundur og risaskriður loka þjóðveginum um Strákagöng.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er ekkert útlit fyrir að það stytti upp í bráð á Siglufirði. Þar hefur rignt án afláts undanfarna tvo daga og samkvæmt mælingum veðurstofunnar hefur úrkoman síðasta sólarhringinn mælst 100 mm - það er svipað og í blautum haustmánuði á höfuðborgarsvæðinu. Og það mun rigna áfram í kvöld og í nótt þótt það dragi jafnt og þétt úr úrkomunni.

„Það er eitthvað rosalegt í gangi“
„Það hefur orðið tjón á húseignum í miðbænum. Ætli það sé ekki svona 20-30 sentimetra djúpt vatn á eyrinni hjá okkur. Síðan eru ár sem renna hér í gegnum bæinn. Þær eru búnar að rjúfa í sundur vegi og fylla ræsi. Þær hafa brotist út úr farvegi og flætt hér yfir eyrina með miklu tjóni, leirburði og öðru grjóti. Þannig að holræsakerfið hjá okkur hefur ekkert undan þessu. Við erum í miklum vandræðum og þetta eru bara náttúruhamfarir hér á ferðinni,“ segir Birgir Ingimarsson, bæjarverkstjóri.

Vatnsstreymið hefur þegar rofið í sundur eina götu í bænum og er langt komið með þá næstu. „Það er eitthvað rosalegt í gangi,“ segir Birgir.

„Það er að flæða mikið á eyrinni sem er lægsti punkturinn í bænum. Það er að flæða inn í marga kjallara hjá fólki og inn í hús. Ég hef ekki tölu á því hvað þetta eru mörg hús, en þau eru fleiri en tíu. Það er mikið tjón hjá fólki. Þetta eru ábyggilega hundrað milljóna tjón, ef ekki meira,“ segir Birgir.

Aurskriður í miðbænum
Birgir segir að aurskriður hafi fallið um hádegisbil inn í miðbæ Siglufjarðar. „Aurskriðan stíflaði farveg sem varð þess valdandi að það fór að flæða inn í hús í suðurbænum líka og hérna niður götur þar og inn í hús. Ég hef nú ekki komist í það að sjá hvað það eru mörg hús sem urðu fyrir tjóni þar. En það eru nokkur hús,“ segir Birgir.

„Við gerum með veglega snjóflóðagarða hérna yfir bænum. Maður verður bara að vona að þeir taki við aurskriðum eins og snjóflóðum,“ segir hann.

„Björgunarsveitin og slökkviliðið er að reyna að hjálpa fólki að dæla úr húsum og kjallörum. Ef það er mikil bílaumferð af fólki sem er að fylgjast með, þá myndast öldur. Það væri gott ef fólk gæti haldið sér ofar í bænum og fyljgast með þar, frekar en að vera að ýfa þessar litlu öldur sem koma. Það er kannski nóg til að það fari inn um dyrnar hjá fólki og skemmi meira.

Fjallið ætlaði að steypast yfir bæinn
„Þetta er eitt mesta úrhelli sem ég hef upplifað. Og ég hef búið hér í bænum í um sextíu ár,“ segir Guðni Þór Sveinsson, íbúi á Siglufirði.

„Fólk bíður bara eftir því að þetta lagist. Þetta eru bara hálfgerðar náttúruhamfarir,“ segir Guðni, en að hans sögn er þetta annar dagurinn í röð sem rigningin er svona yfirgengileg.

Í hádeginu í dag sat Guðni við matarborðið heima hjá sér þegar hann sá aurskriður og vatnsstreymi steypast niður fjallshlíðina fyrir ofan bæinn. Í fljótu bragði datt honum helst í hug að fjallið ætlaði að steypast yfir bæinn í heild sinni.

Gat ekki hugsað sér að yfirgefa matinn
„Mér fannst vera að koma undan snjóflóðagarði sem er í þrjátíu metra frá húsinu og gnæfir yfir það. Þegar maður sér vatnið spretta svona undan snjóflóðagarðinum, þá hélt ég fyrst að hann væri bara að koma ofan á húsið hjá mér. Mér datt nú í hug að yfirgefa matinn sem ég var að borða, en ég tímdi því nú ekki svo ég beið aðeins lengur og sá að þetta var nú ekki garðurinn,“ segir Guðni.

Hann segir að skriðuföllin hafi ekki valdið meiriháttar skemmdum. „Það tókst að bjarga því sem bjargað varð, eftir stendur bara leir og drulla og einhverjar skemmdir á lóðinni,“ segir hann. Hann tekur þó fram að vatnið hafi byrjað að streyma inn í húsið í gegnum niðurfallið á neðri hæðinni.

Úrhelli víðar
Á Austurlandi var einnig mikið úrhelli í gær. Úrkoman var slík að Seyðisfjarðardeild Rauðakrossins brá á það ráð að opna fjöldahjálparstöð fyrir ferðamenn sem hugðust gista á tjaldsvæðinu. Fjórtán ferðamenn leituðu á fjöldahjálparstöðina, enda var útilokað að sofa í tjaldi meðan rigningin gekk yfir.