Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Þetta eru auðvitað mikil vonbrigði“

23.03.2018 - 22:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta eru auðvitað mikil vonbrigði. Ég hafði miklar vonir til þess að þetta gæti orðið að lögum í þessari viku,“ segir þingmaðurinn Kolbeinn Óttarsson Proppé, Vinstri grænum, um það að frumvarp um lækkun kosningaaldurs hafi ekki komist til atkvæðagreiðslu í dag eins og til stóð. Kolbeinn er fyrsti framsögumaður meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í málinu.

Finnst þér menn hafa beitt málþófi í þessu máli?
„Ég veit ekki hvað á að kalla hlutina en menn þurftu mikið að ræða um þessi mál. Það var miklu meiri umræða núna í þriðju umferð en var bæði í fyrstu og annarri umferð. En þingmenn hafa náttúrulega fullan rétt á að nýta sér þann rétt sem þeir hafa til að tjá sig um málin,“ segir Kolbeinn.

Kolbeinn segir að nú verði örðugt að ljúka málinu fyrir kosningarnar í vor.

„Við vorum svo sem öll á því að við værum að tefla á tæpasta vað með að ná þessu í gegn fyrir þessar kosningar. Þannig að nú er augljóslega enn skemmri tími til stefnu, en það þarf bara að setjast yfir það. En eins og ég segi: þetta er orðið ansi knappt.“

Hann segir að frumvarpið verði lagt fram að nýju á næsta þingi ef með þarf.

„Ég hef þá miklar vonir til þess að það náist breiðari samstaða um málið því að mjög margir sem gerðu athugasemdir við það nú höfðu helst athugasemdir við það hversu skammur tími var til stefnu,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV