„Þetta er það sem ég dýrka að gera“

Mynd: Guðmundur Einar / RÚV

„Þetta er það sem ég dýrka að gera“

10.07.2018 - 14:49
Í öðrum þætti af Rabbabara fylgir Atli Már Steinarsson rapp-prinsinum Aroni Can eftir, ræðir við hann um frægðina, upptökuferlið og siðapostula á samfélagsmiðlum.

Aron Can vakti athygli landsmanna fyrst fyrir tveimur árum með laginu Enginn mórall, þá aðeins 16 ára gamall. Síðan þá hefur hann gefið út þrjár plötur, sú nýjasta, Trúpíter, kom út fyrr á þessu ári.

Aron vinnur mest í stúdíóinu og mikið af lögunum verður til þegar hann „freestyle-ar“ við einhvern takt. Sjálfur segir hann lögin fjalla um það sem honum liggur á hjarta, sama hvað það er. „Mér finnst að allir ættu að tala um það sem að liggur þeim á hjarta. Tónlist hefur alltaf verið þannig fyrir mér, ég er bara að reyna að koma því út.“

Frægðin var ekki alltaf auðveld fyrir rapparann unga en hann segir það góðu baklandi að þakka að honum hafi tekist að bakka út úr því. Það er hins vegar tónlistin sem á hug hans allan í augnablikinu. „Sama hvað einhver myndi segja, ég myndi ég alltaf halda áfram að koma hingað og búa til lög. Það er vinnan mín, það er það sem ég dýrka að gera, það er það sem ég mun alltaf gera.“

Þetta er annar þáttur af átta í seríunni en í næstu þáttum fáum við meðal annars að kynnast Alviu, Flóna og Cyber. Þættirnir eru framleiddir af RÚV núll, nýrri þjónustu RÚV við ungt fólk. Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Tónlist

Fólk fattar ekki hvað við vinnum mikið