Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Þetta er svona gott ping pong“

Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir / RÚV

„Þetta er svona gott ping pong“

18.08.2017 - 18:59

Höfundar

„Við ætlum að fara í hvern smellinn á fætur öðrum, það er ekkert flóknara en það,“ segir Helgi Björnsson um tónleika Síðan Skein Sólar á Tónaflóði á morgun. „Og blanda með smá rokk og róli,“ bætir hann svo við kotroskinn.

Síðan skein sól fagna 30 ára starfsafmæli í ár og Helgi segist muna vel eftir fyrstu tónleikunum þeirra sem voru í mars 1987 á Hlaðvarpanum í Grjótaþorpinu. „Það snjóaði, og snjóaði og snjóaði. Jakob bassaleikari bjó í Hafnarfirði og ætlaði varla að komast í bæinn vegna snjókomu. Svo spiluðum þessa tónleika og Síðan skein sól, alla daga síðan,“ segir Helgi léttur í bragði. 

Helgi er ekki búinn að ákveða hvað hann ætli að sjá um daginn, hann æltar að rölta um bæinn og sjá hvað grípur athyglina. En hvernig skyldi hann undirbúa sig fyrir svona risastóra tónleika? „Maður reynir bara að varðveita orkuna. Maður þarf að eiga svolítið mikið inni fyrir klukkutíma gigg fyrir þetta marga. Því fleiri, því meiri orka sem maður þarf að senda. En svo fær maður líka eitthvað til baka frá áhorfendum, þetta er svona gott ping pong.“

Einn hluti af undirbúningnum hjá Helga er svo að fara í klippingu, þó svo ekki sé víst að þess gerist þörf. „Ég fór til klipparans míns og sagði bara „Jæja, hvernig eigum við að taka þetta?“, og hann sagði bara „Það þarf ekkert að klippa þig,“ og þá sagði ég bara „Ókei“. Honum leyst svo vel á mig að hann útskrifaði mig. Tók kannski pínu bartana.“

Helgi Björnsson var gestur Síðdegisútvarpsins og ræddi væntanlega tónleika Síðan Skein Sólar á Tónaflóði. Í lokin setti hann „Nóttin er yndisleg“ á fóninn og tileinkaði það Menningarnótt.  

Tengdar fréttir

Tónlist

Stórtónleikar í bígerð á Menningarnótt

Mynd með færslu
Innlent

Tónaflóð á Arnarhóli