„Þetta er svo rosalega persónulegt“

01.12.2018 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að upplifun þingheims hafa verið gríðarlega erfiða eftir að fréttir úr Klaustursupptökunum fóru að berast. Á upptökunum á barnum Klaustur heyrast fjórir þingmenn Miðflokksins og tveir þingmenn Flokks fólksins tala illa og á niðurlægjandi hátt um samstarfsfólk sitt á Alþingi og aðra.

„Maður fékk bara svona allskonar tilfinningar. Maður var bæði reiður og svo sár. Þetta eru búnir að vera sérstakir dagar, vægast sagt,“ sagði Áslaug Arna í Vikulokunum á Rás 1 í dag. „Þetta er auðviðað samstarfsfólk manns og ég vinn náið með öllum sem formaður nefndar og með öllum úr öllum flokkum. Þetta er svo rosalega persónulegt.“

Hún bendir á að þetta hafi þegar haft afleiðingar fyrir fjóra af þeim þingmönnum sem sátu að sumbli á Klaustri. Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson voru reknir úr Flokki fólksins í gær og Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, ætla að taka sér launalaust leyfi frá störfum.

„Ég held að það séu allir ennþá að melta hversu mikið þetta var og hversu ótrúlega brútal,“ segir Áslaug.

Spurð hvort hún haldi að þingmennirnir eigi eftir að geta unnið áfram á Alþingi, þar sem þeir þurfa að sitja nefndarfundi og horfast í augu við fólkið sem það níddi á barnum segir Áslaug Alþingi vera sérstakan vinnustað. „Alþingi er bara allt öðruvísi vinnustaður heldur en aðrir vinnustaðir. Þú ert bara kjörin og stendur bara frammi fyrir þínum kjósendum. Ég er ekkert viss um að þetta mundi þekkjast svona í fyrirtækjum, að menn þurfi bara að sitja þetta svona af sér. Þannig að auðvitað er það sérstakt. Alþingi er löggjafarvaldið og við þurfum að starfa með þeim sem eru kjörnir inn.“

 

Áslaug Arna var spurð hvort hún gæti ímyndað sér að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gæti unnið með þeim þingmönnum sem eru uppvísir af því að tala svona, ekki síst í ríkisstjórnarsamstarfi, segist hún finnast það mjög erfitt. „Ég mundi ekki segja það. Það sem þú þarft að hafa fyrst og fremst í stjórnmálum er að fólk geti treyst þér og unnið með þér. Það finnst mér mjög erfitt á þessum tímapunkti.“