Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Þetta er mjög flókin staða“

15.09.2017 - 11:41
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, metur stöðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, þannig að hann hafi verið kosinn með stuðningi Sjálfstæðismanna og á ekki von á að breyting verði á því. Staðan í stjórnmálunum sé mjög flókin. Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttamaður, ræddi við Guðlaug í morgun þegar hann var á leið á þingfund Sjálfstæðismanna í Valhöll.

Hvernig metur þú stöðu Bjarna Benediktssonar sem formanns? „Bjarni hefur verið kosinn með stuðningi og ég á ekkert von á að það verði nein breyting á því. Þetta er mjög flókin staða sem er komin upp núna í stjórnmálunum. Við Sjálfstæðismenn erum að setjast yfir það núna,“ segir Guðlaugur Þór.

Að mati Guðlaugs yrði það stórt mál að rjúfa nú þing og boða til kosninga. „Við erum nýbúin að kjósa. Ég tel mikilvægt að menn fari yfir málið í rólegheitum og meti hvað er best að gera. Það sem er undir eru stórir hagsmunir, sem eru hagsmunir íslensku þjóðarinnar og þau mál sem við erum að ræða og eru undirliggjandi eru auðvitað hræðileg og það eru allir sammála um það. Ég tel að vísu að við þurfum nú sérstaklega að fara í þau mál.“ Hann kveðst þeirrar skoðunar að sem allra fyrst þurfi að herða refsingar fyrir kynferðisbrot. Skiljanlegt sé að fólki sé brugðið og fyllist óhugnaði í tengslum við mál sem þetta, uppreist æru kynferðisbrotamanna.

Var rétt hjá dómsmálaráðherra að láta forsætisráðherra einan vita af þessari undirskrift? „Dómsmálaráðherra er manneskja sem vandar sig mjög í sínum stöfum og ég held að hún hafi gert það. Þetta er eitthvað sem við auðvitað förum yfir. Í svona málum er oft auðvelt að vera vitur eftir á. Við erum bara að setjast hér niður til að fara yfir þessi mál.“

Kemur til greina að skipta Bjartri framtíð út fyrir Framsóknarflokk í ríkisstjórn? „Eins og ég segi, það eru nokkrir klukkutímar síðan þetta gerðist. Við förum yfir þetta af yfirvegun því það eru miklir hagsmunir undir.“