Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta er bara kynferðisbrot“

06.03.2019 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Enginn vafi er á því að vændi er kynferðisbrot, segir Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segist vilja herða viðurlög við vændiskaupum meðal annars með nafnbirtingu kaupenda.

Kveikur fjallaði í gær um vændi á Íslandi. Mat þeirra sem best til þekkja er að framboð á vændi hafi aukist mikið á undanförnum árum. Gera má ráð fyrir að sextíu til áttatíu séu í vændi á höfuðborgarsvæðinu á hverjum tíma. Kaupendur eru oftast giftir karlmenn en seljendur eru erlendar og íslenskar konur sem segjast selja vændi í von um betra líf.

Ragna Björg  var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hún segir gríðarlega stóran hóp þolenda vændis hafa leitað sér aðstoðar hjá Bjarkarhlíð en misjafnt sé hvort þeir vilji losna úr heimi vændisins. 

„Þetta er náttúrulega mjög einstaklingsbundið hvar fólk er statt og sumir eru bara komnir má segja alveg á endann, eru bara næstu stoppistöð frá annað hvort geðdeild eða sjálfsvígi. Það eru oftast þeir sem vilja fá hjálp út og sem betur fer eru þeir með auka kraft til að óska eftir hjálp.“

Afdráttarlaus í því að vændi sé ofbeldi

Fólk sem selur vændi, sem leitar til Bjarkarhlíðar, á oft langa sögu að baki af því að hafa verið beitt ofbeldi. Ragna er afdráttarlaus í því að vændi sé kynferðisofbeldi og eigi að vera afgreitt í dómskerfinu sem slíkt. Ábyrgðin liggi hjá þeim sem kaupa það.  

„Við vinnum bara samvæmt því að það er bara einn sem ber ábyrgð á vændi og það er sá sem að kaupir vændið og hann ber ábyrgð vegna þess að hann ákveður. Vændi væri ekki til nema af því það eru kaupendur.“

„Ef maður lítur á afleiðingarnar þá eru þær bara nákvæmlega þær sömu og þeir sem eru a takast á við afleiðingar ofbeldis, sem sagt þessi vanmáttur, þessi sjálfsásökun, þessi mikla vanlíðan, sjálfsskaðandi hegðun og svo framvegis. Þannig að í mínum huga, og líka eins og ég túlka lögin, þá er þetta bara kynferðisbrot, að kaupa vændi,“ segir Ragna. 

Vill herða viðurlög við vændiskaupum með nafnbirtingu

Umfjöllun Kveiks hefur vakið viðbrögð víða. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir á Twitter að stjórnvöld geti ákveðið að herða viðurlög við vændiskaupum meðal annars með nafnbirtingu. Til þess þurfi pólitískan vilja sem hún hafi.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir