Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þetta er bara eins og hver önnur vinna

Mynd: Halla Harðardóttir / Halla Harðardóttir

Þetta er bara eins og hver önnur vinna

14.04.2018 - 10:00

Höfundar

„Ég er búin að læra það með árunum að hver dagur er vinna. Því meira jafnvægi og stöðugleiki sem er í vinnunni því betur skilar þú orkunni í verkin,“ segir Gabríela Friðriksdóttir. Gabríela opnaði sýningu í Hverfisgallerí um liðna helgi og bauð Víðsjá heim af því tilefni.

„Þessi mynd til dæmis, Á milli himnastiga, hún er svona mynd sem bara kemur,“ segir Gabríela um eitt verkanna. „Ég held að ég myndi aldrei skissa svona mynd því hún er frekar væmin,“ segir hún og segist hafa látið efnið ráða í það skiptið. Hún bætir við að hún hafi ekki ætlað að fela „ljótu börnin“ heldur leyfa öllum verkum að vera með: „því þetta er bara ferli.“ Hún segir þó að á einhverjum ákveðnum degi hefði hún örugglega hugsað: „Ji minn, þessi mynd er nú aðeins of mikið af því góða.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Harðardóttir

Gabríela segir að síðan hún útskrifaðist hafi hún alltaf unnið málverk og þau hafi lítið breyst á þeim tíma: „En efnistökin hafa breyst því ég náttúrulega eldist,“ segir hún. „Ég byrjaði strax að blanda saman tússlitum og málningu, en svo er maður búin að læra margt á leiðinni, hvað er sniðugt að nota saman og hvað ekki,“ segir hún.

Hún segir ferlið vera jafnt og þétt og ef hún vinni á hverjum degi þá læri hún alltaf eitthvað nýtt. „Ég var rosalega glöð að verða þrítug því þá var ég loksins búin að finna jakka sem ég passaði í. Svo hefur þetta verið frekar ánægjulegt eftir það, því hitt var svona frekar mikill barningur. Þegar maður er yngri er maður að reyna að vera eitthvað en nú er þetta, held ég, bara náttúrulegt,“ segir Gabríela.

Hún segist með árunum hafa lært að hver dagur sé vinna og eftir því sem meira jafnvægi og stöðugleiki sé í vinnunni því betur skili hún orkunni í verkin. „Í gamla daga var maður svo æstur að segja já við öllum tilboðum í sýningar, maður var alltaf að gera sýningu og þá varð sýningin kannski dáldið sálarlaus, að vissu leiti,“ segir hún og segir að hún hafi alltaf verið að reyna að kynna sjálfa sig og hún hafi ekki fattað að það hafi kannski verið betra: „að segja nei við þessum fimm og taka bara hinar fimm. Vinna frekar statt og stöðugt og hafa góðan tíma,“ segir hún og bætir við: „En þetta lærir maður. Eftir þrjátíu og fimm verður maður meistari í því að segja nei.“

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Harðardóttir

Gabríela segir að ef maður hlýði listagyðjunni og vinni statt og stöðugt þá sé sá hinn sami alltaf í eilífri endurnýjun. Hún segist jafnframt aldrei hafa átt í erfiðleikum með að fá hugmynd, það sé ekki í hennar mengi. „Þú bara gerir hlutina og svo kannski færðu tilboð að sýna á sýningu sem heitir eitthvað ákveðið. Þá áttu kannski einhver verk sem eru vísar að því konsepti og þá getur þú haldið áfram að vinna í því,“ segir hún.

„Þess vegna skiptir svo miklu máli að vera alltaf að vinna. Og þetta þurfa ekkert endilega að vera einhver ódauðleg verk, þetta er bara spurning um að tengja hugann við og hjartað og þá ertu alltaf í æfingu, og þarft ekkert að hafa áhyggjur af því að verða uppurin. Þetta er bara eins og að borða og sofa að skapa listaverk. Þetta er bara hver önnur vinna.“

Víðsjá heimsótti Gabríelu á heimili hennar og vinnustofu og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.