Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Þetta er alveg út í hött“

06.04.2016 - 08:35
Mynd: RÚV / RÚV
Tilkynningin sem stjórnarráðið sendi til erlendra fjölmiðla í gærkvöld er út í hött að mati Guðna Th. Johannessonar sagnfræðings og ekki til þess fallin að útskýra hvað gekk á á Íslandi í gær.

Stjórnarráðið sendi tilkynningu til erlendra fjölmiðla í gærkvöld þar sem greint er frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi falið varaformanni flokksins að taka við í ótilgreindan tíma. Sigmundur hafi ekki sagt af sér.

Guðni sagði í Morgunútvarpinu á Rás2 í morgun að tilkynningin væri eins og eitt af síðustu skilaboðunum úr byrginu áður en það félli um koll. „Menn leggja ekki inn umboð til að gegna embætti forsætisráðherra og segjast svo ætla að ná í það aftur eftir einhvern ótilgreindan tíma. Auðvitað getur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson orðið forsætisráðherra aftur eftir kosningar eða hvaðeina en menn láta ekki líta svo út, hvorki hér heima né erlendis, að menn séu bara í smá pásu, þannig að þetta er alveg út í hött.“